8-0 stórsigur KA á Völsung

Fótbolti

KA lék sinn fyrsta leik á Kjarnafæðismótinu þetta árið í dag er liðið mætti liði Völsungs. Fyrirfram bjuggust margir við þurrum leik enda fyrsti æfingaleikur undirbúningstímabilsins en svo varð svo aldeilis ekki og KA liðið skoraði næstum því að vild í leiknum.

KA - Völsungur 8-0
1-0 Áki Sölvason ('1)
2-0 Brynjar Ingi Bjarnason ('28)
3-0 Hrannar Björn Steingrímsson ('31)
4-0 Sæþór Olgeirsson ('70)
5-0 Bjarni Aðalsteinsson ('74)
6-0 Steinþór Freyr Þorsteinsson ('81)
7-0 Sæþór Olgeirsson ('86)
8-0 Þorri Már Þórisson ('90)

Það tók ekki hálfa mínútu að fá fyrsta markið í leiknum en það gerði Áki Sölvason þegar hann slapp aleinn í gegn og gerði vel í að klára færið af yfirvegun. Staðan því strax orðin 1-0 og KA tók strax völdin í leiknum. Strákarnir héldu boltanum meira og nýttu tækifærið vel í að koma sér inn í nýtt leikskipulag sem Óli Stefán Flóventsson hefur sett upp.

Brynjar Ingi Bjarnason tvöfaldaði svo forystuna á 28. mínútu og skömmu síðar kom Hrannar Björn Steingrímsson okkur í 3-0 sem voru hálfleikstölur. Síðari hálfleikur var mun rólegri og gerðist lítið í fyrri hlutanum.

En flóðgáttirnar opnuðust þegar Sæþór Olgeirsson gerði fjórða mark KA á 70. mínútu og í kjölfarið skoruðu Bjarni Aðalsteinsson, Steinþór Freyr Þorsteinsson áður en Sæþór gerði sitt annað mark í leiknum stuttu fyrir leikslok. Þorri Már Þórisson gerði svo lokamarkið í uppbótartíma og 8-0 stórsigur KA staðreynd.

Þrátt fyrir töluverða yfirburði KA þá áttu gestirnir alveg sín færi og gerði Aron Dagur Birnuson í marki KA vel í að halda hreinu í dag. Margt jákvætt má taka úr leiknum í dag en vissulega má ekki taka of mikið mark á honum enda fyrsti æfingaleikur en klárt mál að það verður gaman að fylgjast með liðinu í næstu leikjum í þessu móti.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is