Að skilja kraftinn - pistill frá Óla Stefáni

Fótbolti
Að skilja kraftinn - pistill frá Óla Stefáni
Óli Stefán Flóventsson (mynd: Þórir Tryggvason)

Ágætu KA menn og konur, nú er árið 2020 gengið í garð. Ár sem er fullt af möguleikum og tækifærum fyrir okkar ástsæla félag. Ég hef verið svo heppinn að fá að kynnast félaginu inn og út núna í rúmlega eitt ár en ég hóf störf hér í nóvember 2018.

Það sem mér finnst merkilegast við KA er sá ógnarkraftur sem býr í félagsmönnum okkar. Ég veit að þið áttið ykkur alls ekki á því hversu sterk við erum og hversu hrikalega sterk við getum orðið, bara með því að skilja virkilega hvað það er sem einkennir félagið.

Á þessu ári hef ég upplifað allan tilfinningaskalann með félaginu okkar, við höfum unnið glæsta sigra sem og tapað illa. Við höfum farið í gegnum erfiða tíma og farið í gegnum góða tíma. Það sem ég tek eftir er hvernig félagið, hvernig þið vinnið í gegnum þessa tíma.

Auðvitað er það svo að ef þú ætlar að verða sigurvegari þá særa töpin vissulega, en sannleikurinn er sá að í töpunum liggur mesti lærdómurinn. Ég sem þjálfari verð að vinna með það og ég verð að vera fljótur að læra og skilgreina tapið til að geta nýtt lærdóminn í sigur, það sama á við okkur sem félag.

Að sjálfsögðu er fullt af hlutum sem má gera betur. Aðstaða KA er alls ekki félaginu sæmandi í dag og ég vona svo heitt og innilega að þeir sem hafa áhrif á þau mál sjái það að félag eins og KA, með alla þá flottu iðkendur sem við eigum, þurfi nútíma aðstöðu til þess að okkar unga fólk blómstri. Ekki bara í íþróttum heldur í lífinu sjálfu.

Í akkurat þessum málefnum finn ég kraftinn. Ég finn það að okkar fólk leggur mikið á sig til þess að félagið nái að vaxa og dafna. Ég treysti þessu öfluga fólki 100% og ég veit að sú vinna skilar sér.

Það sem má ekki gerast á meðan er að við sem félag slökum á. Við verðum að vinna með stöðuna eins og hún er og gera það besta úr henni. Hálf fullt glas miklu frekar en hálf tómt.

Það er margt sem við getum unnið með á meðan og eitt af því er að virkja félagsandann enn betur. Ég er heillaður af honum og ég vil meira af honum. Ég vil að allir sjái þann kraft og að sá sláttur sem fylgir honum bergmáli um landið. Við erum KA og við vinnum alltaf saman. Í gegnum súrt og sætt þá vitum við það eitt að við höfum hvort annað og félagið saman.

KA er að stíga upp, KA er að styrkjast að innan og með hverjum deginum verðum við sterkari. KA er að átta sig á styrkleikum sínum og ég er stoltur sendiherra félagsins og fyrir gildi þess.

Áfram KA í blíðu og stríðu
Óli Stefán Flóventsson


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is