Áfram fullt hús í Kjarnafæðismótinu

Fótbolti
Áfram fullt hús í Kjarnafæðismótinu
Torfi skoraði strax í sínum fyrsta leik með KA

KA tók á móti Leikni Fáskrúðsfirði í Kjarnafæðismótinu í dag en leikurinn var næstsíðasti leikur liðanna í mótinu. Fyrir leikinn var KA með fullt hús stiga og markatöluna 22-0 en þurfti á sigri að halda til að fara upp fyrir Þór sem hafði leikið einum leik meira og var stigi fyrir ofan liðið.

KA 5-1 Leiknir F. 
1-0 Torfi Tímóteus Gunnarsson ('25) 
2-0 Brynjar Ingi Bjarnason ('35) 
2-1 Dagur Ingi Valsson ('69) 
3-1 Hrannar Björn Steingrímsson ('84) 
4-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('85) 
5-1 Ottó Björn Óðinsson ('88)

Eins og við mátti búast var KA liðið sterkari aðilinn en Leiknismenn voru þó staðráðnir í að loka vel á okkar lið og reyna að halda markinu hreinu. Það gekk fyrstu 25 mínútur leiksins en þá skoraði nýjasti leikmaður KA, Torfi Tímóteus Gunnarsson, gott mark með skalla eftir hornspyrnu.

Tíu mínútum síðar var staðan orðin 2-0 þegar Brynjar Ingi Bjarnason skoraði einnig með skalla, nú eftir aukaspyrnu en í bæði skiptin var það Ólafur Aron Pétursson sem átti sendinguna og frábært að fá hann aftur af krafti inn í liðið.

Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleiknum og KA liðið komið í þægilega stöðu. En það getur ýmislegt gerst í fótboltanum og Leiknismenn fengu vítaspyrnu á 69. mínútu sem Dagur Ingi Valsson nýtti og kom gestunum aftur inn í leikinn, 2-1.

KA liðið reyndi hvað það gat til að auka muninn á ný enda alltaf hættulegt þegar aðeins eitt mark skilur liðin að og það kom kortéri síðar þegar Hrannar Björn Steingrímsson skoraði laglegt mark eftir undirbúning Guðjóns Péturs Lýðssonar.

Hvort markið hafi slökkt í gestunum eða kveikt betur upp í okkar liði skal ég ekki segja en Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði fjórða mark KA örfáum andartökum síðar eftir sendingu frá Þorra Mar Þórissyni en Þorri hefur komið mjög vel inn í liðið í Kjarnafæðismótinu.

Ottó Björn Óðinsson kláraði dæmið svo endanlega þegar hann gerði fimmta markið eftir klafs í teignum og 5-1 sigur KA staðreynd. Með sigrinum er okkar lið áfram með fullt hús stiga og á toppi mótsins en framundan er lokaleikurinn gegn Þór á föstudag kl. 19:15. Sigurvegari leiksins mun vinna mótið en KA liðinu dugir þó jafntefli.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is