Almarr, Haukur og Andri snúa aftur í KA

Fótbolti
Almarr, Haukur og Andri snúa aftur í KA
Þrír uppaldir snillingar á leið heim!

Það var enginn smá liðsstyrkur sem KA barst í dag þegar tilkynnt var um komu þeirra Almarrs Ormarssonar, Hauks Heiðars Haukssonar og Andra Fannars Stefánssonar. Allir eru þeir uppaldir hjá KA og er gríðarlega jákvætt að sjá þá snúa aftur á heimaslóðirnar. Gríðarleg gleði braust út á föstudagsframsögu KA þar sem koma þeirra var tilkynnt.

Haukur Heiðar er 27 ára varnarmaður og snýr aftur eftir sjö ára fjarveru en hann lék með meistaraflokki KA frá 2008 til 2011. Hann hefur leikið með KR og AIK í sænsku úrvalsdeildinni en hann varð nýlega sænskur meistari með AIK. Með KR varð hann Íslandsmeistari og tvívegis Bikarmeistari. Þá hefur Haukur leikið 7 A-landsleiki og var í EM hópi Íslands árið 2016. Hann hefur leikið 80 leiki fyrir KA og gert í þeim 6 mörk.

Almarr sem er 30 ára gamall miðjumaður lék með Fjölni á síðustu leiktíð en hjálpaði KA þar áður að tryggja sér sæti í efstu deild sem og að festa félagið þar sumarið 2017. Almarr lék með meistaraflokki KA 2005 til 2008 áður en hann fór til Fram og síðar KR. Hann varð Bikarmeistari með báðum liðum áður en hann gekk aftur í raðir KA árið 2016. Með KA hefur Almarr leikið 99 leiki og gert í þeim 15 mörk, það er því ljóst að hans fyrsti leikur í sumar verður tímamótaleikur.

Andri Fannar er 27 ára gamall og hefur leikið sem bakvörður undanfarin ár en er betur þekktur hjá okkur KA mönnum sem miðjumaður. Andri Fannar lék með KA frá 2008 til 2010 og lék á þeim tíma alls 58 leiki og gerði 8 mörk. Í kjölfarið gekk hann í raðir Valsmanna þar sem hann varð tvívegis Íslandsmeistari og tvívegis Bikarmeistari. Auk þess að vera öflugur leikmaður er Andri frábær þjálfari og gert góða hluti á þeim vettvang.

Koma þessara þriggja leikmanna er að sjálfsögðu gríðarlegur styrkur fyrir lið KA sem og félagið í heild. Það skiptir sköpum að hafa alvöru félagsmenn og uppalda leikmenn í okkar röðum og koma þessara þriggja mun bara ýta enn frekar undir hinn góða félagsanda sem hefur einkennt starf KA að ógleymdum styrk þeirra á vellinum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is