Baráttusigur á Stjörnunni (myndaveislur)

Fótbolti
Baráttusigur á Stjörnunni (myndaveislur)
Mikkel gerði sigurmarkið (mynd: Sævar Geir)

KA tók á móti Stjörnunni í Pepsi Max deildinni á Greifavellinum í gær en mikið var undir hjá báðum liðum. KA sem hefur átt frábært sumar er í hörkubaráttu við topp deildarinnar en gestirnir hafa sogast niður í botnbaráttuna og úr varð mikill baráttuleikur.

Þetta var þriðji leikur liðanna í sumar en KA hafði unnið fyrri tvo á dramatískan hátt, þá sérstaklega er liðin mættust í bikarnum. Það leið ekki á löngu uns Stjörnumenn höfðu komið sér í úrvalsfæri en skot Olivers Haurits small í stönginni og strákarnir sluppu með skrekkinn.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum

Fyrsta markið kom hinsvegar á 29. mínútu er Ásgeir Sigurgeirsson stýrði boltanum laglega í netið eftir fyrirgjöf frá Sebastiaan Brebels en fyrirgjöf hans kom eftir mikinn sóknarþunga KA liðsins og staðan orðin 1-0.

Í kjölfarið pressuðu gestirnir mikið og leituðu að jöfnunarmarkinu, en aftur átti Haurits skot í stöngina og KA leiddi því í hléinu. Í upphafi síðari hálfleiks var komið að Ásgeiri að hitta stöngina en hann átti góðan skalla eftir hornspyrnu en inn vildi boltinn ekki.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Strax í kjölfarið kom hinsvegar jöfnunarmarkið er Þorsteinn Már Ragnarsson gerði vel í að stela boltanum af Þorra Mar sem hugðist skýla honum út fyrir, Þorsteinn renndi boltanum fyrir markið og þar lúrði Hilmar Árni Halldórsson og gat ekki gert annað en að koma boltanum í netið. Staðan orðin 1-1 og 53. mínútur liðnar.

Leikurinn róaðist töluvert í kjölfarið og útlit fyrir að gestirnir væru sáttir með stigið. Er kortér lifði leiks kviknaði aftur á sóknarleik KA liðsins og á 81. mínútu tókst Mikkel Qvist að stanga boltann í netið eftir aukaspyrnu frá Hallgrími Mar og KA því aftur komið í forystu.

Skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma uppskar Dusan Brkovic sitt annað gula spjald og þurftu strákarnir því að klára leikinn manni færri. Eftir örvæntingarfullar tilraunir Stjörnumanna að jafna metin vann KA liðið boltann, Jakob Snær Árnason virtist vera að sleppa einn í gegn er Eyjólfur Héðinsson klippti hann niður og uppskar beint rautt spjald.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum

Þar með rann þetta út í sandinn fyrir gestina og gríðarlega sætur 2-1 sigur KA staðreynd. Ekki endilega besti leikur liðsins í sumar en það skiptir engu og í raun gríðarlega sterkt að leggja Stjörnuna að velli á degi sem þessum. Strákarnir eiga nú sex leiki eftir í deildinni og eru heldur betur með í baráttunni á toppnum.

Framundan eru nú tveir leikir gegn Breiðablik en liðin mætast í Kópavoginum á laugardaginn og svo fyrir norðan miðvikudaginn 25. ágúst. Valsmenn eru á toppnum, sex stigum fyrir ofan KA en hafa leikið leik meira en Blikar eiga leik í kvöld og eru stigi á eftir okkar liði.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is