Föstudagsframsagan - Hádegisverður í KA-heimilinu í nóvember

Almennt

Það er mikið framundan hjá okkur í KA-heimilinu föstudaga í nóvember. Þjálfarar meistaraflokkanna okkar munu halda framsögur í hádeginu milli 12:00 og 13:00 og Vídalín Veitingar munu framreiða dýrindis hádegisverð. Allir félagsmenn hjartanlega velkomnir. Hvar er betra að byrja helgina en í KA-heimilinu?

Það er blakdeild KA sem ríður á vaðið föstudaginn 2. nóvember þegar þeir Filip Szewczyk og Miguel Mateo Castrillo, þjálfarar karla og kvennaliðs KA í blaki munu kynna veturinn sem framundan er, væntingar og vonir en báðum liðum er spáð gríðarlega góðu gengi. Einnig er áætluð Evrópukeppni á vegum NEVZA í febrúar. Hvor um sig mun halda um 10 mínútna framsögu um sitt lið og síðan gefst félagsmönnum tækifæri á að spyrja þá, sem og Arnar M. Sigurðsson, formann blakdeildar, spjörunum úr. Þá verður kjúklingarjómapasta og brauð til sölu frá Vídalín Veitingum á aðeins 2.000 kr. 

Þann 9. nóvember mun Óli Stefán Flóventsson, nýráðinn þjálfari knattspyrnuliðs KA, sitja fyrir svörum og halda framsögu um vonir og væntingar fyrir starfið hjá KA, hvernig hann sér hlutina fyrir sér og hvað það var sem lokkaði hann norður. Honum til aðstoðar verður Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri félagsins, sem hefur fingurnar í leikmannamálum félagsins. Þann daginn munum við bjóða uppá kótilettur í raspi og meðlæti fyrir 2.000 kr.

Þann 16. nóvember mun formaður félagsins, Ingvar Már Gíslason, halda framsögu um stöðu félagsins og hvað hefur þokast í samningsmálum með uppbyggingu og nýjan rekstrarsamning. KA stóð fyrir miklum félagsfundi rétt fyrir kosningar í vor og mikil forvitni meðal félagsmanna að vita hvernig þau mál standa í dag. Þennan daginn verður Lasagne og meðlæti fyrir aðeins 2.000 kr í boði.

Enginn föstudagsframsaga verður 23. nóvember en þann 30. nóvember munu þeir Stefán Árnason og Jónatan Magnússon, þjálfarar KA og KA/Þór í handboltanum loka mánuðnum með framsögum um gengi vetrarins hingað til, hvað stendur til eftir áramót og hvernig þeim finnst hafa tekist til í deild þeirra bestu. Þann daginn verður hvorki meira né minna en lambasteik og meðlæti í boði fyrir 2.500 kr. 

Þetta er eitthvað sem enginn má láta framhjá sér fara. Það þurfa allir að borða og hvar er betra að gera það en í KA-heimilinu?

2. nóv: Blakdeild KA - Filip og Mateo
9. nóv: Knattspyrnudeild KA - Óli Stefán Flóventsson
16. nóv: Ingvar Már Gíslason
30. nóv: Jónatan Magnússon og Stefán Árnason


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is