KA/Þór vann frábæran sigur á Stjörnunni

Handbolti
KA/Þór vann frábæran sigur á Stjörnunni
6 stig af 10 mögulegum! (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór tók á móti Stjörnunni í KA-Heimilinu í kvöld í 5. umferð Olís deildar kvenna. Stelpurnar höfðu unnið báða útileiki vetrarins en hinsvegar höfðu báðir heimaleikirnir tapast og sást langar leiðir að stelpurnar ætluðu sér að breyta því í kvöld. Byrjunin var eftir því og strax eftir fimm mínútna leik var staðan orðin 4-0 og spilamennskan algjörlega til fyrirmyndar.

Varnarleikur liðsins var stórkostlegur og þar fyrir aftan var Olgica Andrijasevic eins og klettur og héldu yfirburðir stelpnanna áfram því eftir kortér var staðan 7-1. Ótrúlegt að sjá jafn vel mannað lið Stjörnunnar aðeins gera eitt mark á þessum tíma. En gestirnir náðu loks áttum og minnkuðu muninn í fjögur mörk.

Sá munur hélst í nokkurn tíma en þá kom aftur frábær kafli hjá okkar liði sem breytti stöðunni úr 10-6 yfir í 13-7, hálfleikstölur voru svo 14-8 og staðan ansi hreint góð.

Gestirnir áttu svo aldrei möguleika í síðari hálfleik því snemma í síðari hálfleik var munurinn orðinn átta mörk og síðar náðist níu marka forysta og eina spurningin í raun bara hversu stór sigur KA/Þórs yrði.

Er 20 mínútur lifðu leiks var staðan 21-12 og þá kom ansi slæmur kafli ef kafla má kalla þar sem stelpurnar skoruðu einungis tvö mörk það sem eftir var og gestirnir löguðu stöðuna án þess þó að gera leikinn spennandi.

Lokatölur 23-19 og frábær heimasigur staðreynd. KA/Þór hefur þar með unnið þrjá leiki af fyrstu fimm og situr í 3. sæti deildarinnar með 6 stig sem ætti að koma einhverjum sérfræðingum á óvart enda liðinu spáð næstneðsta sætinu fyrir tímabilið.

Spilamennskan fyrstu 40 mínútur leiksins var algjörlega stórkostleg og ljóst að fá lið deildarinnar eiga roð í liðið þegar það leikur eins og það gerði á þessum mínútum. Hinsvegar er smá áhyggjuefni hvað liðið virðist eiga erfitt með að spila heilan leik á fullum krafti.

Vissulega kom slæmi kaflinn í kvöld á tíma þar sem spennan í leiknum var í raun horfin en þetta er þó klárlega eitthvað sem Jónatan og Þorvaldur þurfa að fara yfir.

Mörk KA/Þórs: Sólveig Lára Kristjánsdóttir 9 mörk, Martha Hermannsdóttir 6, Katrín Vilhjálmsdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Þórunn Eva Sveinbjörnsdóttir 1, Þóra Björk Stefánsdóttir 1 og Una Kara Jónsdóttir 1 mark.

Olgica Andrijasevic varði 17 skot í markinu og Selma Sigurðardóttir Malmquist varði vítakast sem var eina skotið sem hún fékk á sig í leiknum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is