KA U vann sannfærandi sigur í fyrsta leik

Handbolti

Ungmennalið KA hóf leik í Grill 66 deildinni í kvöld er liðið tók á móti Víking. Gestirnir voru hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í Olís deildinni í fyrra á sama tíma og KA U vann sigur í 2. deildinni og mátti því búast við erfiðum leik.

Strákarnir náðu snemma góðum tökum á leiknum og mátti þar helst þakka fyrir öflugum varnarleik og frábærri markvörslu. Munurinn var lengst af eitt til tvö mörk í fyrri hálfleik en undir lokin kom magnaður kafli og strákarnir leiddu 13-7 er flautað var til hálfleiks.

Það stefndi svo allt í afar sannfærandi sigur okkar liðs eftir að staðan var orðin 16-9 snemma í síðari hálfleik. Þá gáfu gestirnir í og gerðu næstu fimm mörk leiksins, staðan var því orðin 16-14 og skyndilega mikil spenna í leiknum enda enn nóg eftir.

Sem betur fór náði liðið áttum og ekki leið á löngu uns munurinn var aftur kominn í fjögur mörk. Það sem eftir lifði leiks leiddi KA U með 4-6 mörkum og sigldu strákarnir öruggum sigri. Síðustu fjögur mörk leiksins voru gestanna og náðu þeir því að laga stöðuna niður í 26-24 sem urðu lokatölur leiksins.

Jóhann Einarsson var besti maður vallarins en hann gerði 8 mörk og var síógnandi. Þorri Starrason gerði 6 mörk, Sigþór Árni Heimisson 3, Arnór Ísak Haddsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Bjarki Reyr Tryggvason 2, Svavar Sigmundsson 1, Sigþór Gunnar Jónsson 1 og Einar Logi Friðjónsson 1 mark.

Í markinu varði Svavar Sigmundsson 14 bolta, þar af 11 í fyrri hálfleik og Bruno Bernat varði 1 víti.

Tvö frábær stig í hús í fyrsta leik og verður svo sannarlega spennandi að fylgjast með framvindu liðsins í vetur. Það er ekkert grín að vera með ungmennalið í næstefstu deild og ljóst að strákarnir ætla sér stóra hluti í vetur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is