Myndir frá svekkjandi tapi KA gegn ÍBV

Handbolti
Myndir frá svekkjandi tapi KA gegn ÍBV
Strákarnir lentu á vegg í gær (mynd: Hannes)

KA tók á móti ÍBV í Olís deild karla í gær í fjögurra stiga leik. Fyrir leikinn voru gestirnir með 11 stig en KA liðið var tveimur stigum fyrir aftan og gat því með sigri jafnað ÍBV í deildinni. Eftir frábæran sigur á FH í síðasta heimaleik var mikil eftirvænting fyrir leiknum og mætingin á leikinn góð að venju hjá stuðningsmönnum KA.

Það var þó ljóst strax í upphafi að lið ÍBV var mætt norður til að sækja tvö stig og sóknarleikur KA gaf aðeins af sér eitt mark á fyrstu tíu mínútum leiksins. Staðan var því strax orðin 1-6 fyrir gestina og útlitið alls ekki gott.

KA liðið fann loks taktinn í kjölfarið og gerði vel í að koma sér inn í leikinn. Til að svara fyrir öflugan varnarleik Eyjaliðsins brugðu Stefán og Jónatan á það ráð að setja aukamann í sóknina sem virkaði til að byrja með. Strákarnir minnkuðu muninn í 10-11 og allt annað að sjá til liðsins.

En það dugði hinsvegar ekki og KA liðið fór að tapa boltanum klaufalega sem gaf ÍBV liðinu ódýr mörk yfir allan völlinn og þeim tókst að skilja sig frá KA liðinu á nýjan leik. Hálfleikstölur voru 14-18 og von manna að strákarnir myndu ná að sýna heilsteiptari leik í síðari hálfleik.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Hannesar Péturssonar frá leiknum

Strákarnir gerðu fyrsta markið eftir hlé en áttu ekki séns eftir það og munurinn á liðunum jókst það sem eftir lifði leiks. Hin öfluga 3-2-1 vörn KA liðsins átti fá svör við sóknarleik ÍBV en gestirnir eru sterkir og kvikir og ljóst að KA liðið þurfti að bakka niður í 5-1 vörn til að þétta raðirnar og vonast eftir markvörslu í kjölfarið.

Það tókst ekki og ÍBV komst mest ellefu mörkum yfir áður en lokaflautið gall og 25-35 sigur gestanna staðreynd. Gríðarlega svekkjandi niðurstaða enda var von um hörkuleik. Það er ljóst að fjarvera Áka Egilsnes er ansi erfið fyrir sóknarleik liðsins en slakur varnarleikur liðsins sem og markvarsla í leiknum kom meira á óvart.

Leikurinn var liður í 11. umferð deildarinnar og er deildin því hálfnuð. KA liðið er í 8. sætinu með 9 stig og er enn í baráttunni en næsti leikur er heimaleikur gegn Aftureldingu á sunnudaginn. Það er ekki nokkur spurning að strákarnir munu mæta tvíefldir í þann leik til að svara fyrir þetta tap. Við sjáumst næstu helgi og sjáum til þess að strákarnir komi sér aftur á sigurbrautina, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is