Ólafur Gústafsson og Rut Jónsdóttir mæta norður!

Handbolti
Ólafur Gústafsson og Rut Jónsdóttir mæta norður!
Mikill liðsstyrkur í handboltanum! (mynd: mbl)

Handknattleikslið KA og KA/Þórs fengu mikinn styrk í dag þegar Ólafur Gústafsson og Rut Arnfjörð Jónsdóttir skrifuðu undir tveggja ára samning við liðin. Mikill hugur er í báðum liðum fyrir komandi vetur og ljóst að koma þessara tveggja landsliðsmanna mun skipta sköpum í þeirri baráttu.

Ólafur sem er 31 árs hefur alls leikið 22 landsleiki fyrir Ísland og gengur til liðs við KA frá KIF Kolding í Danmörku. Með landsliðinu hefur Ólafur tekið þátt á HM 2013, EM 2018 og HM 2019 en hann er uppalinn í FH og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2011 áður en hann hélt út í atvinnumennsku með Flensburg-Handewitt í Þýskalandi.

Þar lék hann í tvö ár og vann meðal annars Meistaradeild Evrópu árið 2014. Í kjölfarið gekk hann til liðs við Aalborg í Danmörku þar sem hann lék frá 2014 til 2016. Veturinn 2016-2017 lék hann með Stjörnunni í Garðabæ en þaðan gekk hann til liðs við KIF Kolding þar sem hann lék í þrjú tímabil.

Rut er 29 ára gömul og gengur til liðs við KA/Þór frá Esbjerg í Danmörku. Hún hefur leikið 89 landsleiki fyrir Ísland og gert í þeim 184 mörk. Rut hefur tekið þátt á öllum þeim stórmótum sem íslenska kvennalandsliðið hefur leikið á og er algjör lykilmaður í liðinu.

Rut er uppalin í HK og hélt út til Danmerkur í atvinnumennsku árið 2008 þar sem hún hefur leikið með Team Tvis Holstebro, Randers, FCM Håndbold og loks Esbjerg. Með Tvis Holstebro vann hún EHF Cup árið 2013 og árið 2016 varð hún bikarmeistari með Randers. Með Esbjerg varð hún danskur meistari árið 2019 auk þess sem liðið bíður eftir niðurstöðu hvort það verði krýndur meistari í ár.

Við bjóðum þau Ólaf og Rut hjartanlega velkomin norður og hlökkum mjög til að sjá til þeirra á komandi vetri. Þarna eru á ferðinni hörkuleikmenn sem við ætlumst til mikils af og ljóst að sú mikla uppbygging sem hefur átt sér stað hjá karlaliði KA og kvennaliði KA/Þórs á undanförnum árum mun halda áfram með þau innanborðs.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is