Stelpurnar tryggðu sér sæti í næstu umferð

Handbolti
Stelpurnar tryggðu sér sæti í næstu umferð
Evrópuævintýrið heldur áfram!

Lið KA/Þórs heldur áfram að skrifa söguna upp á nýtt en liðið tryggði sér sæti í næstu umferð Evrópubikarsins er liðið vann afar sannfærandi 37-34 sigur á Kósóvómeisturum KHF Istogu í síðari leik liðanna. Stelpurnar unnu fyrri leikinn 22-26 og vinna því einvígið samtals 63-56.

Sigurinn í dag var ansi sannfærandi og hefði í raun átt að vera miklu stærri. Frábær byrjun skóp sigurinn í raun strax í upphafi en staðan var 15-5 fyrir KA/Þór um miðbik fyrri hálfleiks. Spennan í einvíginu var því alveg horfin og meira jafnvægi kom í leikinn í kjölfarið. Stelpurnar leiddu 24-15 í hléinu og í raun bara spurning hve stór sigurinn yrði.

Mestur varð munurinn tólf mörk á liðunum í stöðunni 30-18 og enn rúmar tuttugu mínútur til leiksloka. Andri Snær Stefánsson þjálfari liðsins fór þá að rótera liðinu meira og fengu allir leikmenn á skýrslu að spreita sig. Stelpurnar gerðu þó meira en bara að spreita sig því allir útileikmenn liðsins hafa nú skorað Evrópumark.

Takturinn datt þó úr leik liðsins og heimakonur gengu á lagið. Þær löguðu stöðuna svo um munaði en það hefði þó þurft ansi mikið til að hleypa spennu í einvígið. Að lokum vannst 37-34 sigur og stelpurnar fögnuðu vel og innilega enda sæti í næstu umferð Evrópukeppninnar í höfn.

Rakel Sara Elvarsdóttir var markahæst í dag með 7 mörk og þar á eftir kom Martha Hermannsdóttir með 6 mörk en ekki nóg með að vera markahæstar þá klúðruðu þær hvorug skoti í dag. Unnur Ómarsdóttir gerði 5 mörk og þær Aldís Ásta Heimisdóttir, Sólveig Lára Kristjánsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir gerðu allar 3 mörk. Þær Telma Lísa Elmarsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir gerðu 2 mörk hvor og þá gerðu Rut Jónsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir, Júlía Sóley Björnsdóttir og Anna Marý Jónsdóttir allar eitt mark.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is