Svekkjandi tap gegn Gróttu

Handbolti
Svekkjandi tap gegn Gróttu
Gulu bolirnir voru áberandi (mynd: Þórir Tryggva)

KA tók á móti Gróttu í 4. umferð Olís deildar karla en báðum liðum var spáð baráttu í neðri hluta deildarinnar og því ljóst að mikilvæg stig væru í húfi. Leikurinn vakti mikla athygli þar sem ágóði af miðasölu rann til fjölskyldu Fanneyjar Eiríksdóttur og Ragnars Snæs Njálssonar. Mætingin var til fyrirmyndar og var frábær stemning í KA-Heimilinu.

Gestirnir frá Seltjarnarnesi leiddu leikinn á upphafsmínútunum og leiddu þeir 2-4 er 10 mínútur voru búnar af leiknum. Þá kom flottur kafli hjá KA liðinu sem skoraði næstu þrjú mörk og stjórnina í leiknum. Varnarleikurinn var frábær og var sem helsti möguleiki gestanna á marki væri að ná hröðum sóknum.

Sóknarleikur KA gekk sem smurð vél, þrátt fyrir að Hreiðar Levý Guðmundsson ætti flottan leik í marki gestanna komst KA í 14-9 rétt fyrir hálfleikinn og virtist algjörlega vera með leikinn í höndum sínum. Hálfleikstölur voru 14-10 og vakti athygli að Einar Jónsson þjálfari Gróttu fékk að halda hálfgerðan fund með dómurum leiksins í hléinu.

Í upphafi síðari hálfleiks fengu strákarnir þó nokkra sénsa á að stinga Gróttu alveg af en klaufaskapur í sókninni kostaði ansi mikið og gestirnir nýttu sér það. Á sama tíma virtist einnig sem að áhersla dómaraparsins hefði breyst og féll lítið með okkar liði. Skyndilega breyttist staðan úr 16-11 yfir í 17-19.

Mest komust Gróttumenn í þriggja marka forskot, en með aðstoð áhorfenda komu strákarnir til baka og minnkuðu muninn. Því miður tókst liðinu aldrei að jafna metin og má þar nefna sem dæmi þrefalda markvörslu Hreiðars Levý í algjörum dauðafærum í einni af síðustu sóknum KA.

Lokatölur voru því KA 21 Grótta 22 og gríðarlega svekkjandi tap staðreynd. KA liðið var algjörlega með leikinn í höndum sér og fékk dauðafæri á að gera útum hann en það tókst ekki. 19 glataðir boltar er tala sem segir allt og það er erfitt að vinna handboltaleiki með slíkri frammistöðu.

Þrátt fyrir það var ýmislegt jákvætt, uppstilltur varnarleikur var frábær og virðist vera að fá lið geti opnað 3-2-1 vörn KA að ráði þegar strákarnir ná að bakka og stilla upp. Sóknarleikurinn var flottur í fyrri hálfleik en féll algjörlega í þeim síðari, sérstaklega fyrstu 20 mínúturnar.

KA er því áfram með 4 stig í deildinni og hefur nú tapað tveimur mikilvægum leikjum í röð. Það er áfram mikilvægur leikur framundan því strákarnir sækja Stjörnuna heim í næstu umferð. Garðbæingar eru í neðsta sæti deildarinnar án stiga og því mikilvægt að landa stigunum í þeim leik.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is