Tvö töp í Ásgarði í handboltanum

Handbolti
Tvö töp í Ásgarði í handboltanum
Svekkjandi tap hjá stelpunum (mynd: EBF)

KA og KA/Þór sóttu Stjörnuna heim í Olís deildum karla og kvenna í handboltanum í gær. Báðar viðureignir voru lykilhluti í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni og voru það konurnar sem hófu veisluna með sínum leik.

KA/Þór hóf leikinn af miklum krafti og greinilegt að stelpurnar voru mættar til að sækja mikilvægan sigur. Eftir rétt rúmlega tíu mínútna leik var staðan orðin 2-7 og útlitið heldur betur gott. Munurinn var þrjú til fimm mörk út fyrri hálfleikinn en að honum loknum leiddi KA/Þór 11-14.

Heimakonur reyndu hvað þær gátu til að jafna metin í þeim síðari en góður leikur okkar liðs kom í veg fyrir það. Það er að segja allt þangað til um fjórar mínútur voru eftir af leiknum, þá jafnaði Stjarnan í 22-22 og komst svo yfir í 23-22. Okkur tókst að jafna í 23-23 á lokamínútunni en á lokasekúndunni fengu Stjörnukonur vítakast sem þær nýttu og unnu því 24-23 sigur.

Gríðarlega svekkjandi niðurstaða eftir að stelpurnar höfðu leitt leikinn frá fyrstu mínútu en svona getur boltinn verið. Með tapinu eru fjögur stig upp í 4. sætið þar sem HK situr en enn eru fimm leikir eftir en KA/Þór og HK mætast einmitt í næsta leik. Það er því enn von um úrslitakeppnissæti þó vissulega hefði það verið afar gott að fá tvö stig útúr þessum leik.

Martha Hermannsdóttir var markahæst í okkar liði með 9 mörk, þar af 6 úr vítum. Ásdís Guðmundsdóttir gerði 8 mörk, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1 og Svala Björk Svavarsdóttir 1. Í markinu varði Matea Lonac 14 skot.

Í kjölfarið tókust karlalið Stjörnunnar og KA á en KA liðið var þó nokkuð laskað og ljóst að erfitt verkefni væri framundan. Áki Egilsnes var í leikmannahópnum en hann er ekki orðinn leikfær og tók því aðeins víti. Daníel Örn Griffin og Jóhann Einarsson voru auk þess fjarverandi og kom því gamla kempan Einar Logi Friðjónsson inn í hópinn.

Stjarnan komst í 3-0 á upphafsmínútunum en strákarnir svöruðu fyrir sig og jöfnuðu í 5-5. Í kjölfarið komust þeir yfir og leiddu leikinn næstu mínútur. En lokakafli fyrri hálfleiks reyndist okkur erfiður og heimamenn leiddu 14-11 í hléinu.

Byrjunin á síðari hálfleik gerði verkefnið svo nær ómögulegt en Stjarnan komst sex mörkum yfir. Strákunum tókst að minnka muninn niður í þrjú mörk en nær komust þeir ekki og að lokum vann Stjarnan 32-25 sigur.

Það var vitað að þetta yrði erfiður leikur gegn liði Stjörnunnar sem hefur heldur betur verið að finna taktinn að undanförnu auk þess sem að vantaði þó nokkuð í okkar lið. Strákarnir eru núna í 10. sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir. Það er ljóst að draumurinn um sæti í úrslitakeppninni er í raun farinn og er það miður.

Við megum þó ekki gleyma því að frá síðasta tímabili þar sem liðið endaði í 9. sæti hefur Tarik Kasumovic yfirgefið liðið en hann var næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar í fyrra auk þess sem Áki Egilsnes hefur verið fjarverandi síðustu mánuði en hann var þriðji markahæsti leikmaðurinn í fyrra. Á sama tíma höfum við verið að spila mikið á ungum og flottum KA leikmönnum sem hafa haldið uppi liðinu.

Nú er bara að klára tímabilið með stæl og sjá til þess að við bætum ofan á þau 11 stig sem liðið hefur nú þegar.

Sigþór Gunnar Jónsson, Patrekur Stefánsson og Jón Heiðar Sigurðsson voru markahæstir í okkar liði með 4 mörk hver. Áki Egilsnes skoraði 3 mörk úr vítum, Allan Norðberg gerði 3 mörk, Einar Birgir Stefánsson 2, Dagur Gautason 2, Andri Snær Stefánsson 1 úr víti, Daði Jónsson 1 og Arnór Ísak Haddsson 1 mark.

Í markinu varði Svavar Ingi Sigmundsson 7 skot og Jovan Kukobat varði 3 skot þar af eitt víti.

Næsti leikur strákanna er heimaleikur gegn Fram á laugardaginn og má búast við hörkuleik en þarna mætast liðin í 9. og 10. sæti deildarinnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is