Dramatískt jafntefli gegn Stjörnunni

Fótbolti
Dramatískt jafntefli gegn Stjörnunni
Mynd - Þórir Tryggva.

KA og Stjarnan gerðu í kvöld 1-1 jafntefli í 15. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Tvö rauð spjöld fengu að líta dagins ljós í miklum hitaleik.

KA 1 – 1 Stjarnan

1 – 0 Ásgeir Sigurgeirsson (’41) Stoðsending: Elfar Árni
1 – 0 Rautt spjald: Aleksandar Trninic (’54)
1 – 1 Jósef Kristinn Jósefsson (’85)
1 – 1 Rautt spjald: Hólmbert Aron Friðjónsson (’95)

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Vedran, Callum, Darko, Aleksandar, Almarr, Hallgrímur Mar, Ásgeir, Emil Lyng og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Elí,  Ólafur Aron, Steinþór Freyr, Davíð Rúnar, Daníel, Archange og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Elfar Árni út – Archange inn (’61)
Hallgrímur Mar út – Steinþór Freyr inn (’83)
Ásgeir út – Bjarki Þór inn (’95)

Leikurinn í dag hófst vægast sagt rólega og gerðist nákvæmlega ekkert á upphafsmínútum leiksins. Gestirnir í Stjörnunni voru ívið meira með boltann fyrsta hálftíma leiksins og virkuðu aðeins ferskari. Þeir sköpuðu sér þó fá marktækifæri.

Eftir því sem leið á leikinn sótti KA liðið í sig veðrið og náði að halda boltanum betur innan liðsins og jókst hættan við mark Stjörnumanna jafnt og þétt. Á 41. mínútu lyfti Elfar Árni boltanum skemmtilega inn fyrir vörn Stjörnumanna og kom þar Ásgeir á ferðinni og lyfti boltanum lystilega yfir Harald í marki Stjörnunar og kom KA yfir. Lítið gerðist eftir markið í fyrri hálfleik og var staðan því 1-0 KA í vil er liðin gengu til búningsherbergja.

Gestirnir úr Garðabænum hófu síðari hálfleikinn af krafti og voru líklegir til að jafna á upphafsmínútum hálfleiksins. KA virtist vera að ná áttum þegar að rúmar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum og voru farnir að færa liðið framar upp völlinn. Það var svo á 54. mínútu sem Aleksandar stoppaði skyndisókn gestanna með tæklingu á Hilmar Árna sem lauk með því að Erlendur Eiríksson dómari leiksins veifaði rauðu spjaldi á Aleksandar fyrir brotið. KA því manni færri síðustu 36 mínútur leiksins. Nokkrum mínútum síðar átti Baldur Sigurðsson fyrirliði Stjörnunar skot í stöngina og skall þar hurð nærri hælum.

Á næstu mínútum áttu gestirnir í Stjörnunni í vandræðum með að opna vörn KA og virkuðu þær löngu sendingar sem þeir beittu upp völlinn lítið sem ekkert og skapaðist enginn hætta við mark KA.

KA liðið datt eðlilega töluvert til baka við rauða spjaldið en reyndi að beita snörpum skyndisóknum þegar að tækifærið gafst. Á 79. mínútu átti Ásgeir frábæran sprett upp vinstri vænginn og var hann felldur niður af Óttari Bjarna varnamanni Stjörnunar við hliðarlínuna og svipaði brotið til þess sem Aleksandar fékk rautt spjald fyrir fyrr í leiknum. Dómari leiksins dæmdi hins vegar einungis gult að þessu sinni þrátt fyrir mikil mótmæli af varamannabekk KA.

KA liðið átti svo skömmu seinna snarpa sókn sem lauk með því að Ásgeir átti magnaða sendingu á fjærstöngina þar sem Emil Lyng kom á ferðinni en skot hans úr ágætis færi framhjá markinu. Þar munaði litlu að KA hefði komist í 2 – 0 manni færri en inn vildi boltinn ekki.

Það var svo þegar að fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma sem Stjörnunni tókst að jafna metin. Guðjón Baldvinsson var þá í barning í teignum við Rajko og varnarmenn KA og lauk sókninni með því að Jósef Kristinn Jósefsson potaði boltanum í netið af stuttu færi og jafnaði metin 1-1. KA menn voru afar ósáttir að markið fengi að standa og vildu meina að brotið hefði verið á Rajko í aðdraganda marksins. Því var Erlendur dómari ekki sammála en Rajko lá óvígur eftir atvikið í nokkrar mínútur og nokkuð ljóst að jöfnunarmark Stjörnunar var vafasamt í meira lagi.

Uppbótartími leiksins var sjö mínútur og reyndu bæði lið hvað þau gátu til að taka stigin þrjú en allt kom fyrir ekki og niðurstaða leiksins 1-1 og þriðja jafntefli KA í röð staðreynd. Mikill hiti var í leiknum og verða tveir leikmenn KA í leikbanni í næsta leik en það eru þeir Aleksandar Trninic og Emil Lyng en Emil var að fá sitt fjórða gula spjald í sumar og því á leið í leikbann líkt og Aleksandar. Einnig fékk Guðmann Þórisson sem er meiddur að líta rauða spjaldið á varamannabekk KA fyrir mótmæli í leiknum.

Nivea KA-maður leiksins: Ásgeir Sigurgeirsson (Átti flottan leik í dag. Laglegt mark og vann vel fyrir liðið. Átti líka flotta sendingu á Emil í restina sem hefði getað komið okkur í 2-0 og gert út um leikinn.)

Næsti leikur KA er á sunnudaginn þegar að við förum suður og etjum kappi við Víking Reykjavík í Víkinni. Sá leikur hefst kl. 18.00 og vonumst við til þess að sem flestir KA menn mæti á þann leik og styðji við bakið á liðinu. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is