Flautumark tryggði sætan sigur á FH

Fótbolti
Flautumark tryggði sætan sigur á FH
Baráttusigur í gær! (mynd: Sævar Geir)

KA tók á móti FH á Dalvíkurvelli í 5. umferð Bestu deildarinnar í gær þar sem strákarnir tryggðu sér sigurinn með hálfgerðu flautumarki en Nökkvi Þeyr Þórisson gerði eina mark leiksins úr vítaspyrnu seint í uppbótartíma og gríðarlega sæt og mikilvæg þrjú stig í hús.

Það má með sanni segja að sigur KA hafi verið sanngjarn þó sigurmarkið hafi heldur betur látið bíða eftir sér. Strákarnir höfðu átt fjögur skot í slá og stöng auk þess að eiga önnur hættuleg færi. Allt leit út fyrir að þetta yrði einfaldlega ekki okkar dagur en baráttan sem einkennir liðið okkar heldur áfram að skila mörkum á mikilvægustu augnablikum leikjanna.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum

Gestirnir úr Hafnarfirðinum voru á köflum mun meira með boltann en varnarleikur KA liðsins er gríðarlega öflugur og voru FH-ingar í raun aldrei líklegir til að koma boltanum framhjá Steinþóri Má sem átti einnig góðan leik í marki KA liðsins.

Nökkvi Þeyr Þórisson fór fyrir sóknarleiknum í leiknum en hann var stöðugt ógnandi og var því við hæfi að hann skyldi sækja vítaspyrnuna sem hann skoraði svo sjálfur úr á þriðju mínútu uppbótartímans.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum

KA er því komið með 13 stig úr fyrstu fimm leikjum sumarsins og er því jafnt liði Vals í toppbaráttunni á eftir Breiðablik sem er með fullt hús stiga. Annan heimaleikinn í röð er KA liðið að snúa erfiðri stöðu yfir í sigur og alveg klárt að okkur eru allir vegir færir í sumar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is