Haukur Heiðar framlengir til 2012

Akureyri Handboltafélag
KA menn hafa verið að ræða við leikmenn sína síðustu daga og hafa samningar við Hauk Heiðar, Jakob og Andra Fannar verið framlengdir. Auk þess mun markabuffið David Disztl verða áfram í herbúðum KA en KR-ingar voru eitthvað að bera víurnar í hann. David er ánægður hér á Akureyri og verður mættur í slaginn 1. mars.

KA gekk frá áframhaldandi samningum við þrjá af sínum efnilegustu leikmönnum um daginn. Eins og áður hefur komið fram á heimasíðunni er Andri Fannar Stefánsson nýbúinn að framlengja samning sinn við KA um eitt ár eða til 2010. Hlaupagikkurinn Haukur Heiðar Hauksson gerði enn betur en hans samningur var framlengdur um tvö ár. Samningur Hauks átti að renna út 2010 en KA tryggði sér hina óþrjótandi krafta hans til ársins 2012. Báðir eru þeir piltarnir fæddir árið 1991 og eru því 18 ára. Jakob Hafsteinsson samdi einnig við félagið en hann er árinu yngri. Þessar fréttir eru mjög gleðilegar fyrir KA því Andri Fannar og Haukur Heiðar hafa verið fastamenn í liðinu síðustu tvö tímabil en Jakob fékk að koma inn á í tveimur leikjum í sumar.
Merkilegt finnst heimasíðunni að feður þeirra allra spiluðu á sínum tíma fyrir KA eða ÍBA. Flestir KA-menn kannast eflaust við þessa snillinga en pabbi Andra Fannars er sjúkraþjálfarinn Stefan Ólafsson sem var í Íslandsmeistaraliðinu 1989. Hafsteinn Jakobsson, pabbi Jakobs kom frá Leiftri fyrir næsta tímabil og spilaði þrjú sumur með liðinu, skoraði m.a. mark KA í sigri liðsins á CSKA Sofia í Evrópukeppni meistaraliða haustið 1990. Sá elsti af pöbbunum er svo Haukur Jóhannsson tannsmiður en hann var í röðum ÍBA í kring um 1970. Segja kunnugir að Haukur yngri sé nákvæm eftirmynd föðurs síns á vellinum.
Svo má geta þess að David Disztl verður áfram hjá KA næsta sumar og mun væntalega koma í topp formi til landsins í byrjun mars.
Myndin með þessari frétt var tekin af KA-mönnunum ungu en Haukur Heiðar átti ekki heimangengt þegar hún var tekin.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is