Ívar Örn valinn besti leikmaður KA

Fótbolti

Knattspyrnudeild KA fagnaði frábærum árangri sumarsins á Evrópufögnuði sínum í Sjallanum um helgina. Sumarið var gert upp og voru hinir ýmsu leikmenn verðlaunaðir fyrir frammistöðu sína er KA náði sínum næstbesta árangri í sögunni.

Ívar Örn Árnason sló heldur betur í gegn á nýliðnu tímabili og var varnarmaðurinn öflugi kjörinn besti leikmaður KA en leikmenn liðsins sáu um kosninguna. Ívar skrifaði á dögunum undir nýjan samning og verður því áfram spennandi að fylgjast með framgöngu okkar manns á komandi árum en það styttist í hundraðasta leik hans fyrir félagið.

Sveinn Margeir Hauksson var kjörinn efnilegasti leikmaður liðsins en Sveinn Margeir sem verður 21 árs á morgun er orðinn lykilmaður í okkar öfluga liði og nú þegar spilað 60 leiki í deild og bikar fyrir félagið og gert í þeim 5 mörk. Þá var hann valinn í U21 árs landsliðið á dögunum auk þess sem að hann átti að vera í A-landsliðshópnum sem mætir Sádi-Arabíu en hann þurfti að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.

Nökkvi Þeyr Þórisson var valinn besti leikmaður KA af Vinum Móða auk þess sem hann var markahæsti leikmaður KA á tímabilinu. Hann var einnig markakóngur Bestu deildarinnar þrátt fyrir að hafa gengið til liðs við Belgíska liðið Beerschot er enn sjö umferðir voru eftir af deildinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is