KA óskar ykkur gleðilegra jóla

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak | Tennis og badminton

Knattspyrnufélag Akureyrar óskar félagsmönnum sínum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Á sama tíma viljum við þakka fyrir ómetanlegan stuðning á árinu sem nú er að líða auk allrar þeirrar sjálfboðavinnu sem félagsmenn unnu fyrir félagið.

Á árinu 2018 fagnaði KA 90 ára afmæli sínu með pompi og prakt og á vellinum náðist frábær árangur. KA festi sig í sessi sem eitt af bestu liðum landsins í fótboltanum og Þór/KA keppti af hörku um Íslandsmeistaratitilinn auk þess að leika í Meistaradeild Evrópu.

Í handboltanum unnu bæði KA og KA/Þór sér sæti í deild þeirra bestu eftir frábæran árangur á síðustu leiktíð og hafa bæði lið farið vel af stað á núverandi leiktíð. KA/Þór fór auk þess alla leið í undanúrslit Bikarkeppni HSÍ.

Í blakinu hampaði karlalið KA öllum þremur stóru titlum ársins og stefnir í ákaflega blómlegt tímabil þennan veturinn. Strákarnir eru á toppi deildarinnar og kvennalið KA hefur leikið glimrandi vel og er í harðri baráttu á toppi sinnar deildar. Bæði lið munu leika í Evrópukeppni eftir áramót.

Júdódeild KA uppskar tvo Íslandsmeistaratitla á árinu í þeim Alexander Heiðarssyni og Bereniku Bernat. Á Íslandsmóti fullorðinna var KA með næstbestan árangur allra júdófélaga á landinu en aðeins JR sem er stærsta júdófélag landsins fékk fleiri stig.

Spaðadeildin stækkaði verulega á árinu og er gríðarlega jákvætt að sjá fleiri og fleiri iðkendur í badminton og tennis hjá félaginu. Deildin verður 6 ára gömul í mars næstkomandi og ákaflega gaman að sjá þá miklu vinnu sem unnin hefur verið á síðustu árum bera ávöxt.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is