Rakel, Helga og Hildur léku í Færeyjum

Handbolti
Rakel, Helga og Hildur léku í Færeyjum
Hildur og Helga fagna góðum sigrum (mynd: HSÍ)

Rakel Sara Elvarsdóttir, Helga María Viðarsdóttir og Hildur Lilja Jónsdóttir voru í eldlínunni í Færeyjum um helgina þar sem U16 og U18 ára landslið Íslands í handbolta léku æfingaleiki við Færeysku jafnaldra sína. Bæði lið léku tvívegis og en leikið var á laugardegi og sunnudegi.

Rakel Sara og Helga María léku með U18 ára landsliðinu sem vann báða sína leiki en í fyrri leiknum spilaði liðið frábærlega í fyrri hálfleik og og leiddi 17-8 þegar flautað var til hálfleiks. Úrslitin voru því ráðin og í raun aðeins spurning hve stór sigur íslenska liðsins yrði en að lokum vannst 32-24 sigur. Rakel Sara gerði 5 mörk í leiknum og Helga María eitt mark.

Liðin mættust svo í mun jafnari leik í gær en stelpurnar leiddu 12-9 í hálfleik. Færeysku stelpurnar lögðu aldrei árar í bát í þeim síðari þó okkar stelpur leiddu allan tímann með 2-4 mörkum og því reyndi á okkar lið að klára dæmið á lokamínútunum. Það tókst og 21-19 sigur í höfn þar sem Rakel Sara skoraði eitt mark.

Þjálfarar U18 landsliðsins eru þau Magnús Stefánsson og Díana Guðjónsdóttir en Magnús þekkjum við að sjálfsögðu ansi vel enda uppalinn í félaginu.

Hildur Lilja og liðsfélagar hennar í U16 léku sína fyrstu landsleiki og byrjuðu fyrri leikinn af krafti. Þær leiddu 14-9 þegar flautað var til hlés en heimastúlkur náðu að laga stöðuna og þegar þrjár mínútur lifðu leiks tókst þeim að jafna metin og að lokum unnu þær óvæntan 23-24 sigur.

Í leik gærdagsins var jafnt á nánast öllum tölum í fyrri hálfelik en íslensku stelpurnar skoruðu síðasta mark hálfleiksins og leiddi því 10-9 í hálfleik. Íslenska liðið byrjaði svo seinni hálfleikinn betur og náði góðu taki á leiknum. Að lokum vannst sanngjarn 23-21 sigur og fyrsti landsliðssigur stelpnanna því kominn í hús.

Ágúst Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson eru þjálfarar U16 ára landsliðsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is