Sigurganga Þór/KA heldur áfram

Fótbolti
Sigurganga Þór/KA heldur áfram
Sannfærandi 2-0 sigur í hús (mynd: Þ.Tr.)

Stelpurnar í Þór/KA byrja sumarið stórkostlega en í kvöld tóku þær á móti KR í 4. umferð Pepsi deildar kvenna. Fyrir leikinn var liðið með fullt hús stiga á toppi deildarinnar og það breyttist ekkert eftir leik kvöldsins.

Þór/KA 2 - 0 KR
1-0 Lillý Rut Hlynsdóttir ('53)
2-0 Sandra Mayor ('85)

Eins og oft áður var Þór/KA talið líklegri aðilinn í leiknum en það segir lítið þegar flautað hefur verið til leiks. Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir stóð vaktina í markinu en nýjasti liðsmaður Þór/KA, markvörðurinn Johanna Henriksson vermdi bekkinn.

Þór/KA hóf leikinn vel og skapaði sér nokkur færi á upphafsmínútunum, Sandra María Jessen fékk það besta en Hrafnhildur Agnarsdóttir í marki KR gerði vel í að verja frá Söndru. Skömmu síðar féll Sandra Mayor inn í teig en ekkert var dæmt og áfram hélt leikurinn.

Ekki tókst stelpunum að koma boltanum í netið í fyrri hálfleik en það var þó aðeins spurning hvenær markið myndi koma því pressa Þór/KA hafði í nokkur skipti komið KR liðinu í vandræði. Það kom því ekki á óvart þegar Lillý Rut Hlynsdóttir skoraði snemma í síðari hálfleik uppúr hornspyrnu. Gríðarlega mikilvægt að fá markið á þessum tímapunkti og létti svolítið á liðinu.

Áfram héldu yfirburðir Þórs/KA í leiknum og voru gestirnir í raun aldrei líklegir til að jafna metin. Við þurftum þó að bíða ansi lengi eftir markinu sem gerði útum leikinn en það gerði Borgarstjórinn sjálfur, Sandra Mayor, á 85. mínútu eftir magnaða sendingu frá Margréti Árnadóttur og Mayor klárar einfaldlega svona færi ein gegn markverði.

Lokatölur 2-0 og mjög sannfærandi frammistaða hjá okkar liði þrátt fyrir að oft hafi verið meiri glans yfir spilamennskunni. Stelpurnar eru því með 12 stig af 12 mögulegum og markatöluna 12-1. Mikið hefur verið talað um að liðið ætli sér að vinna alla titla sumarsins og það er ljóst að það er alls ekki innihaldslaust tal því að stelpurnar hefja mótið af virkilega flottum krafti.

Næsti leikur er útileikur gegn FH sunnudaginn 27. maí og svo tekur við gríðarlega krefjandi heimaleikur gegn Stjörnunni í Mjólkurbikarnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is