Tap gegn Blikum

Fótbolti
Tap gegn Blikum
Mynd - Þórir Tryggva.

KA tapaði í kvöld 0-1 fyrir Breiðablik í Pepsi Max deildinni. Mark Blika kom úr umdeildri vítaspyrnu eftir einungis þriggja mínútna leik.

KA 0 – 1 Breiðablik

0 – 1 Thomas Mikkelsen - Víti (’3)

Áhorfendur:

947 áhorfendur

Lið KA:

Aron Dagur, Haukur Heiðar, Torfi Tímoteus, Callum, Ýmir Már, Andri Fannar, Almarr, Daníel, Hrannar Björn, Hallgrímur Mar og Elfar Árni.

Bekkur:

Kristijan Jajalo, Ólafur Aron, Hallgrímur Jónasar, Brynjar Ingi, Sæþór Olgeirs, Alexander Groven og Nökkvi Þeyr.

Liðið í kvöld

Skiptingar:

Alexander Groven inn – Ýmir Már út (’66)

Nökkvi Þeyr inn – Andri Fannar út (’75)

Sæþór Olgeirs inn – Haukur Heiðar út (’87)

KA og Breiðablik áttust við í 4.umferð Pepsi Max deildar karla í kvöld á Greifavellinum á Akureyri. Byrjunarlið KA var óbreytt frá tapinu gegn FH í síðustu umferð.

Það var ekki mikið búið af leiknum þegar að Ívar Orri dómari leiksins flautaði vítaspyrnu á KA. Daníel Hafsteins átti þá að hafa brotið á Thomas Mikkelsen en erfitt var að sjá hvað hafði átt sér stað. Algjört klafs í teignum og algjör óþarfi að flauta á þetta enda erfitt að sjá hver braut á hverjum og er morgunljóst að ef þetta er víti væru vítaspyrnur í fótboltaleikjum í tugatali. Thomas fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Aron Dagur fór því miður í vitlaust horn og Blikar komnir yfir eftir einungis þrjár mínútur. Vítið kom eins og blaut tuska í andlit KA en liðið var þó fljótt upp á lappirnar og var mikið mun betra.

Þegar stundarfjórðungur var liðin áttu Blikar hins vegar tvö hættuleg færi að marki KA en Aron Dagur gerði vel að verja. Tíu mínútum seinna átti Hallgrímur Mar ágætis tilraun fyrir KA en skotið beint á Gunnleif í marki Blika en hann hélt ekki boltanum og hreinsuðu varnarmenn Blika boltann í horn.

Á 35. mínútu átti KA frábæra sókn þegar að Ýmir gaf flotta sendingu inn á Elfar sem gaf fyrir markið á Daníel sem framlengdi boltanum áfram á Hrannar sem gaf góða sendingu út í teig á Hallgrím Mar sem lét vaða á markið og varði Gunnleifur frábærlega í horn. Upp úr hornspyrnunni skoraði KA en markið dæmt af vegna rangstöðu. Þá tók KA hornið stutt og Hallgrímur átti frábæra sendingu á Elfar sem skallaði laglega í markið framhjá Gunnleifi en markið stóð því miður ekki.

Fimm mínútum fyrir hálfleik gerði KA tilkall til að fá vítaspyrnu þegar að brotið var á Hrannari en dómari leiksins vildi meina að brotið hefði byrjað utan teigs og aukaspyrna dæmd. Stuttu seinna var flautað til hálfleiks og gestirnir í Blikum með 0-1 forystu. KA liðið var mikið mun betra seinni hluta hálfleiksins og óheppið á jafna ekki leikinn.

KA hóf seinni hálfleikinn vel og stýrði liðið umferðinni og lá Blika liðið til baka en KA fékk fjölmargar hornspyrnur og aukaspyrnur en náði hins vegar ekki að nýta sér þær nægilega vel. Í uppbótartíma leiksins gerði KA tilkall til að fá vítaspyrnu þegar að leikmaður Blika varði boltann með hendi og bjargaði marki en ekkert dæmt.

Liðið var mun meira með boltann í seinni hálfleik en það vantaði aðeins meiri hættu upp við mark Blika og lauk leiknum með sigri gestanna og er það þessi umdeildi vítaspyrnudómur Ívars Orra sem skilur liðin af. Sanngjörn niðurstaða hefði verið jafntefli en fótboltinn getur verið miskunarlaus íþrótt og það sýndi sig í kvöld.

KA-maður leiksins: Almarr Ormarsson (Var öflugur á miðjunni hjá KA í dag og vann boltann ófáu sinnum af Blikum.)

Maður leiksins

Næsta verkefni KA er á sunnudaginn þegar að liðið fer á Samsung völlinn í Garðabæ og mætir þar Stjörnumönnum. Hefst leikurinn kl. 17.00. Frábær mæting var hjá KA fólki á höfuðborgarsvæðinu á fyrsta útileik KA á höfuðborgarsvæðinu gegn FH í síðustu umferð og hvetjum við alla KA menn halda uppteknum hætti og mæta gulklædd á Samsung völlinn á sunnudaginn og styðja liðið. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is