Þjálfarateymi KA klárt fyrir sumarið

Fótbolti
Þjálfarateymi KA klárt fyrir sumarið
Við væntum mikils af þessu öfluga teymi!

Knattspyrnudeild KA hefur gengið frá þjálfaramálum fyrir komandi baráttu í Pepsi Max deildinni. Óli Stefán Flóventsson er að sjálfsögðu áfram aðalþjálfari liðsins en honum til aðstoðar verða þeir Hallgrímur Jónasson og Pétur Heiðar Kristjánsson.

Það er ljóst að það verður mikill styrkur fyrir félagið að fá þá Hallgrím og Pétur inn í þjálfarateymið en  Hallgrímur er hokinn reynslu eftir veru sína í atvinnumennskunni með Lyngby BK, OB, SønderjyskE og GAIS auk þess sem hann hefur leikið 16 leiki fyrir A-landslið Íslands. Hallgrímur hefur leikið með KA undanfarin tvö ár og verður áfram leikmaður liðsins.

Pétur Heiðar var aðalþjálfari meistaraflokks á Dalvík og hefur þjálfað yngri flokka hjá KA undanfarin ár auk þess sem hann er fyrrum leikmaður liðsins.

Þá er gaman að segja frá því að Óli Stefán mun klára UEFA Pro þjálfaragráðuna í janúar en hann hefur verið í því krefjandi námi samhliða því að þjálfa KA liðið undanfarið ár.

Branislav Radakovic verður áfram markmannsþjálfari liðsins en hann kom inn fyrir síðasta tímabil og hefur verið mikil ánægja með hans störf. Þá verður Halldór Hermann Jónsson áfram styrktar- og sjúkraþjálfari liðsins. Áður hafði Halldór verið leikmaður KA og lék hann alls 35 leiki fyrir félagið þar sem hann gerði 2 mörk.

Við berum miklar væntingar til þessara öflugu kappa og verður gaman að fylgjast með gangi mála á komandi sumri en KA náði sínum besta árangri frá árinu 2002 á nýliðnu sumri er liðið endaði í 5. sæti Pepsi Max deildarinnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is