Þór/KA lagði Íslandsmeistarana 2-1

Fótbolti
Þór/KA lagði Íslandsmeistarana 2-1
Lára Kristín skoraði í dag (mynd: Þórir Tryggva)

Þór/KA tók á móti Breiðablik í lokaumferð riðlakeppninnar í Lengjubikar kvenna í knattspyrnu í Boganum í dag. Bæði lið voru fyrir leikinn örugg í undanúrslit en 2. sætið í riðlinum var undir auk þess sem að ávallt er hart barist þegar þessi tvö lið mætast.

Þór/KA 2 - 1 Breiðblik 
1-0 Lára Kristín Pedersen ('4) 
2-0 Sandra Mayor ('54) 
2-1 Agla María Albertsdóttir ('57) 

Það var ekki löng biðin eftir fyrsta markinu en það gerði Lára Kristín Pedersen fyrir Þór/KA strax á fjórðu mínútu leiksins eftir að hún fékk frábæra fyrirgjöf frá Sögu Líf Sigurðardóttur. Lára sem var alein á fjærstönginni gerði svo vel í að klára færið og draumabyrjun staðreynd.

Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleiknum en mikil barátta var í leiknum og klárt mál að hvorugt liðið vildi tapa þessum leik þó oft væri meira undir í leikjum liðanna.

Borgarstjórinn hún Sandra Mayor tvöfaldaði forystuna á 54. mínútu eftir að hún hafði sloppið í gegnum vörn Blika með magnaðri sendingu frá Láru Kristínu. Staðan var þó ekki lengi 2-0 því Agla María Albertsdóttir minnkaði muninn á 57. mínútu með laglegu skoti yfir Bryndísi Láru í markinu.

Bæði lið reyndu hvað þau gátu til að bæta við mörkum en inn vildi boltinn ekki og 2-1 sigur Þórs/KA staðreynd sem tryggir liðinu 2. sætið í riðlinum. Breiðablik endar hinsvegar í 3. sætinu og því klárt að þessi lið mætast aftur í undanúrslitunum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is