Þór/KA og ÍBV skildu jöfn (myndaveislur)

Fótbolti
Þór/KA og ÍBV skildu jöfn (myndaveislur)
Krefjandi leikur í gær (mynd: Egill Bjarni)

Þór/KA tók á móti ÍBV í fyrstu umferð seinni hluta Pepsi Max deildar kvenna í fótboltanum í gær. Fyrir leik munaði aðeins einu stigi á liðunum og voru því gríðarlega mikilvæg stig í húfi fyrir bæði lið en á sama tíma og stutt er upp í efri hluta deildarinnar er stutt niður í botnbaráttuna.

Leikurinn fór ansi rólega af stað og alveg ljóst að hvorugt liðið vildi tapa leiknum. Það var ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks sem leikurinn opnaðist aðeins og því von um fjörugri síðari hálfleik.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Það varð raunin því strax í upphafi síðari hálfleiks skoraði Colleen Kennedy fyrsta markið þegar hún kom Þór/KA yfir. Markið var í skrautlegri kantinum en Colleen hugðist senda boltann fyrir markið en hitti boltann illa og hann skoppaði rólega að markinu. En Auður í marki gestanna misreiknaði boltann illa sem endaði í netinu.

En gestunum tókst að jafna metin á 65. mínútu er boltinn datt fyrir Hönnu Kallmaier í teignum og hún renndi boltaum snyrtilega framhjá Hörpu í marki Þórs/KA. Stelpurnar reyndu hvað þær gátu til að ná inn sigurmarki en tókst ekki og lokatölur því 1-1.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum

Þór/KA er að rétta úr kútnum eftir brösuga byrjun en liðið er ósigrað í síðustu fjórum leikjum sínum. Hinsvegar þarf að ná að bæta árangurinn á heimavelli en við bíðum enn eftir fyrsta heimasigri sumarsins. Stelpurnar fá nú smá tíma til að undirbúa sig fyrir næsta leik en í næstu viku sækja stelpurnar sterkt lið Selfoss heim.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is