Tilnefningar til þjálfara ársins 2021

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak
Tilnefningar til þjálfara ársins 2021
Frábær árangur náðist á vellinum árið 2021

Alls eru sjö þjálfarar eða þjálfarapör tilnefnd til þjálfara ársins hjá KA fyrir árið 2021. Þetta verður í annað skiptið sem verðlaun fyrir þjálfara ársins verða veitt innan félagsins og verða verðlaunin tilkynnt á 94 ára afmæli félagsins í byrjun janúar.

Deildir félagsins tilnefna eftirfarandi þjálfara:

Andri Snær Stefánsson

Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs var valinn besti þjálfari Olísdeildar kvenna 2021. Andri Snær tók við liði KA/Þór fyrir veturinn 2020-2021 og endaði á að vinna alla titlana sem í boði voru er liðið varð Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari auk þess að vera Meistari Meistaranna. Fyrir veturinn í vetur hafði KA/Þór aldrei hampað stórum titli og afrekið magnaða því enn stærra.

Andri kemur einnig að þjálfun 8. flokks KA og KA/Þór en Andri Snær er uppalinn KA-maður og leggur allt í sölurnar þegar kemur að þjálfun og gerði einnig sem leikmaður. Þá fór Andri einnig tvær frægðarfarir með KA/Þór í Evrópubikarkeppni kvenna. Frábær sigur vannst í Kósóvó gegn landsmeisturunum þar en svo fylgdi naumt tap í 32-liða úrslitunum gegn bikarmeisturum Spánar, BM Elche.

Anton Orri Sigurbjörnsson

Anton Orri stóð sig virkilega vel á árinu í þjálfun yngriflokka KA. Anton Orri er metnaðarfullur þjálfari sem leggur sig allan fram að gera eins vel og hann getur til að efla iðkendur félagsins. Tímabilið 2020-2021 þjálfaði hann strákana í 4. flokki og stelpurnar í 5.-7. flokki. Í haust er hann að þjálfa stelpurnar í 4.-7. flokki.

Helsti árangurinn hjá þessum liðum var að 5. flokkur kvenna vann öll mót sem þau tóku þátt í (Íslandsmeistarar, TM-mótsmeistarar í Eyjum, Goðamótsmeistarar og Stefnumótsmeistarar). Þá áttu strákarnir í 4. flokki einnig mjög flott mót á ReyCup þar sem öll liðin stóðu sig vel og þá varð B-lið 4. flokks Íslandsmeistari. Anton Orri er því virkilega vel að tilnefningunni kominn.

Arnar Grétarsson

Arnar tók við liðinu sumarið 2020 og snéri þá slöku gengi við. Það varð strax ljóst á nýju undirbúningstímabili að stefnan var sett hátt og æfði liðið virkilega markvisst frá nóvember og fram að móti. Undir stjórn Arnars endaði lið KA í 4. sæti, einungis einu stigi frá Evrópusæti sem er jafnframt næst besti árangur KA í efstu deild. Eins og gefur að skilja á Arnar mjög stóran þátt í góðum árangri liðsins. Arnar Grétarsson er metnaðarfullur og fær þjálfari sem gerir miklar kröfur á sína leikmenn og ýtir hann þannig undir framfarir hjá leikmönnum og liðinu.

Hannes Snævar Sigmundsson og Gylfi Rúnar Edduson

Hannes og Gylfi hafa tekið að sér aukna ábyrgð við að þjálfa yngri flokka og staðið fullkomlega undir þeirri ábyrgð. Með næmni, skilningi og gleði hafa þeir skapað skemmtilegt umhverfi á æfingum og hafa hjálpað iðkendum að ná betri tökum á íþróttinni sem og á sjálfum sér.

Heimir Örn Árnason og Stefán Árnason

Heimir og Stefán eru tilnefndir saman frá handknattleiksdeild KA þar sem þeir þjálfa saman 4. flokk karla sem náði ótrúlega góðum árangri síðasta vetur. Yngra árið í 4. flokki síðastliðinn vetur varð Íslandsmeistari og eldra árið datt út í undanúrslitum eftir ótrúlegan leik í KA-heimilinu og urðu þeir í 2. sæti í deildarkeppninni, á markatölu.

Heimir og Stefán eru frábærir saman með þennan aldur drengja og sýna mikinn metnað í sínum störfum. Þeir nýta allar auka mínútur til þess að taka auka æfingar með flokkinn sem sýnir sig best á árangri hans. En eins og vitað er að þá er árangur ekki allt. Góður mórall er í flokknum sem þeir þjálfa og töluverður agi. Hópurinn er vel samanstilltur og þeir eru ekki aðeins að ala upp flotta handboltamenn heldur einnig frábæra KA-menn!

Miguel Mateo Castrillo

Blakdeildin tilnefnir Miguel Mateo Castrillo þjálfara mfl kvk sem þjálfara ársins. Eftir að hafa unnið alla titla undanfarin ár, var töluverð breyting á liðinu síðasta tímabil þar sem margir ungir leikmenn voru að stíga sín fyrstu skref í eftstu deild. Mateo náði að leiða liðið í úrslita leik Kjörís bikarsins og í undanúrslit í íslandsmótinu. Mateo hefur unnið frábært starf sem þjálfari og er að skila sér í fjölda nýrra landsliðsmanna frá KA bæði í yngri landslið og A landslið.

Mateo er að vinna mjög mikilvægt starf með öllum þeim leikmönnum sem hann þjálfar, og hafa óvenju margir leikmenn í liðinu verið valdir í landsliðin. Bæði U17 og U19 landsliðin sem fóru til Danmerkur og Finnlands í nóvember, og núna síðast í A - lansliðið sem er að fara til Lúxemborgar milli jóla og nýárs. Þessi árangur einstakra leikmann er afrakstur mikillar vinnu Mateo með að bæta leik hvers og eins. Eins og staðan er í dag er lið KA í efsta sæti með jafn mörg stig og Afturelding, sem er frábær árangur.

Paula del Omo Gomez

Paula hefur þjálfað nær alla yngriflokka deildarinnar undanfarin á, eftir að hún tók við hefur iðkendafjöldi hækkað um 300%. Ásamt fjölgun hefur gengi inn á vellinum líka farið upp á við, skilaði hún U 14 í öðrusæti á íslandsmótinu og U16 í því þriðja. Paula sinti líka standblaksþjálfun í sumar og náðu tveir leikmenn íslandsmeistara titli í U 15 KVK.

Paula fór sem aðstoðarþjálfari með U 19 til Finnlands nú í haust og er hún að hasla sér völl hjá blaksambandinu í þjálfarateymi landsliðanna. Helstu kostir Paulu sem þjálfara er hversu einstaklega vel hún nær til yngri iðkenda og ásamt því að kenna íþróttina að ala á góðum gildum sem ekki eru síður mikilvæg í lífinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is