Umfjöllun: Frábær sigur á Þór

Almennt | Fótbolti
Umfjöllun: Frábær sigur á Þór
Mynd - Sævar Sig.

KA vann í dag 1-0 sigur á Þór í 11. umferð Inkasso deildarinnar á Akureyrarvelli. Mark KA skoraði Elfar Árni eftir stoðsendingu frá Hallgrími Mar.

KA 1– 0 Þór

1 – 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’51) Stoðsending: Grímsi

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Davíð Rúnar, Callum, Ívar Örn, Aleksandar, Archange, Almarr, Hallgrímur Mar, Juraj og Elfar Árni

Bekkur:

Fannar, Halldór Hermann, Ólafur Aron, Pétur Heiðar, Orri og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Elfar Árni út – Pétur Heiðar inn (’82)

Juraj út – Orri inn (’90)

Almarr út – Ólafur Aron inn (’93)

 

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað til að byrja með og einkenndust fyrstu 30 mínútur leiksins af mikilli baráttu þar sem gestirnir í Þór virkuðu aðeins frískari án þess þó að skapa sér nein færi.

Eftir fyrstu 30 mínútur leiksins tók KA leikinn yfir og fór að halda boltanum meira en gestirnir. Ekki var mikið um teljandi færi og fór svo að markalaust var að fyrri hálfleik loknum.

Sá síðari hófst á svipuðum nótum. KA var mikið með boltann en ekki að opna vörn Þórsara mikið.

Það var hins vegar á 51. mínútum sem Hrannar Björn gaf út á hægri kantinn á bróður sinn Hallgrím Mar sem átti magnaða fyrirgjöf á Elfar Árna sem stakk sér fram fyrir varnarmann Þórs og skallaði boltann laglega í netið og kom KA yfir.

Eftir markið hélt KA áfram að bæta í og voru líklegra að bæta við en Þórsarar að jafna.

Það fór svo að KA sigldi sigrinum örugglega heim og mjög sterkur sigur á grönnum okkar í Þór staðreynd. Úrslitin þýða það að KA er enþá í toppsæti deildarinnar og nú með 5 stiga forskot á Grindavík sem er í 2. sæti.

Gaman var að sjá hversu þétt og heilsteypt KA liðið var í dag í spilamennsku sinni. En í dag vantaði þá Ásgeir Sigurgeirs og Guðmann Þóris sem hafa verið frábærir í sumar vegna meiðsla en það kom ekki að sök.

Vörnin hjá KA var sem fyrr ótrúlega öflug og varðist allt liðið gríðarlega vel og var gaman að sjá hversu vel liðið hélt boltanum í dag.

KA-maður leiksins: Hallgrímur Mar Steingrímsson (Var magnaður í dag. Átti stórkostlega fyrirgjöf á Elfar Árna í markinu og tók varnarmenn Þórs ófáu sinnum á og hafði í flestum tilfellum betur. Verið mjög góður upp á síðkastið.)

Næsti leikur KA er gegn Fram föstudagskvöldið 22. júlí. En sá leikur fer fram á Laugardalsvelli kl. 19.15 og hvetjum við alla sem staddir verða á höfuðborgarsvæðinu að gera sér ferð á völlinn og styðja við bakið á liðinu. Áfram KA! 


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is