Umfjöllun: Heimasigur gegn Huginn (viðtalspakki)

Almennt | Fótbolti
Umfjöllun: Heimasigur gegn Huginn (viðtalspakki)
Góður sigur sem hefði getað verið stærri

KA lagði Huginn frá Seyðisfirði 2-1 sem hefði hæglega getað verið stærri en gestirnir létu okkar menn hafa fyrir hlutunum.

KA 2 – 1 Huginn

1 – 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’49) Stoðsending: Juraj Grizelj
2 – 0 Juraj Grizelj (’69) Stoðsending: Elfar Árni Aðalsteinsson
2 – 1 Friðjón Gunnlaugsson (’83)

Lið KA:

Rajkovic, Hrannar Björn, Guðmann, Davíð Rúnar, Callum, Archange, Aleksandar, Almarr, Hallgrímur Mar, Juraj og Elfar Árni.

Bekkur: 

Fannar, Hilmar, Halldór, Ólafur, Baldvin, Orri og Ívar.

Leik KA og Hugins í 3. umferð Inkasso deildarinnar var beðið með mikilli eftirvæntingu enda hafði KA tapað illa í síðustu umferð og var spennandi að sjá hvernig liðið myndi koma til baka.


Guðmann Þórisson var gripinn í spjall stuttu fyrir leik í KA-TV

Strax frá upphafi var ljóst að KA væri sterkara liðið og menn ætluðu sér sigurinn. Strax á 4. mínútu komst Elfar Árni í algjört dauðafæri þegar hann slapp í gegnum vörn gestanna en Atli Gunnar lokaði vel.

Örstuttu síðar fékk Almarr Ormarsson boltann fyrir opnu marki, Almarr þurfti að teygja sig í boltann sem varð þess valdandi að hann skóflaði boltanum yfir, markið lá í loftinu og virtist einungis vera tímaspursmál hvenær KA myndi skora.

Áfram héldu okkar menn að pressa á gestina sem komu sér þó betur í takt við leikinn og náðu að loka betur á sóknarþunga okkar manna. Elfar Árni sem var mjög líflegur í leiknum setti boltann svo í stöngina undir lok hálfleiksins en Elfar ásamt Juraj Grizelj báru uppi sóknarleik KA í leiknjum. Juraj lék sér að Huginsvörninni og boltinn barst á endanum til Elfars en boltinn eins og áður sagði í stöngina.

Það var því markalaust í hálfleik en títtnefndur Elfar Árni þurfti ekki langan tíma í þeim síðari til að koma KA á blað. Juraj átti flotta hornspyrnu á nærstöngina þar sem Elfar hafði komið sér fyrir og stangaði knöttinn rakleiðis í netið, 1-0 og margir KA menn sem önduðu léttar.

Gestirnir reyndu að svara fyrir markið en gekk erfiðlega á síðasta þriðjungnum, svo fór á endanum að Rajkovic átti langt útspark og þá meina ég langt sem Elfar Árni skallaði áfram og Juraj Grizelj tók við og klobbaði Atla Gunnar, staðan orðin 2-0 og spurningin í rauninni bara hve stór sigurinn yrði.

KA fékk nokkur fín færi til að bæta við en það voru hinsvegar gestirnir sem áttu lokamarkið þegar Friðjón Gunnlaugsson skoraði eftir laglegan snúning inn í teig. Þetta var í raun eina alvöru færi gestanna í leiknum en það sá til þess að það var spenna í lokamínútunum.

En fleiri urðu mörkin ekki og KA landaði því mikilvægum þremur stigum í hús, sigurinn hefði hæglega getað verið stærri en sigur er sigur og það eru stigin sem gilda þegar upp er staðið.


Hrannar Björn og Elfar Árni mættu í viðtal eftir leik

KA-maður leiksins: Guðmann Þórisson (Lokaði vel á tilraunir gestanna sem fengu í raun aðeins eitt færi í leiknum sem reyndar nýttist.)

Næsti leikur KA er miðvikudaginn 25. maí þegar liðið sækir Grindavík heim í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins, leikurinn hefst klukkan 17:30.

Myndasyrpa af áhorfendum af leiknum má nálgast með því að smella hér:


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is