Umfjöllun: Öruggur sigur í fyrsta leik

Almennt | Fótbolti
Umfjöllun: Öruggur sigur í fyrsta leik
Mynd - ka.is

KA og Fram mættust í dag í 1.umferð Inkasso-deildarinnar á gervigrasinu á KA-vellinum. Markalaust var í fyrri hálfleik en í þeim síðari skoraði KA þrjú mörk á 13 mínútna kafla og gerðu út um leikinn.

KA 3 – 0 Fram

1 – 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’59) Stoðsending: Grímsi
2 – 0 Aleksandar Trninic (’66) Stoðsending: Juraj
3 – 0 Almarr Ormarsson (’72) Stoðsending: Elfar

Lið KA:

Rajkovic, Hrannar Björn, Guðmann, Davíð Rúnar, Callum, Archange, Aleksandar, Almarr, Hallgrímur Mar, Juraj og Elfar Árni.

Bekkur:

Fannar, Baldvin, Hilmar Trausti, Halldór Hermann, Ásgeir, Ólafur Aron og Ívar Örn.

Skiptingar:

Elfar Árni út – Ásgeir inn (’77)
Hrannar Björn út – Baldvin inn (’85)
Aleksandar út – Halldór inn (’88) 

Það var mikil spenna í loftinu fyrir leik KA – Fram sem áttust við í 1.umferð Inkasso-deildarinnar á KA-vellinum í dag.  Bæði lið þó nokkuð breytt frá síðasta leiktímabili og því búist við áhugaverðum leik.

Upphafsmínútur leiksins voru afar rólegar og voru bæði liðin óörugg í sínum aðgerðum og var spilaður mikill háloftabolti fyrsta korterið. Gestirnir í Fram voru sprækir í fyrri hálfleik og pressuðu okkar menn ofarlega á vellinum.

Framarar áttu tvö hættulegustu færi fyrri hálfleiksins. Það fyrra á 18. mínútu þegar að löng sending kom úr vörn Framara inn fyrir vörn KA á Hafþór Mar sem Rajko náði að verja vel. Síðan á 33. mínútu þegar mikil hætta skapaðist fyrir framan mark KA sem lauk með því að Hrannar Björn hreinsaði boltann úr markteignum í höfuð Aleksandar af stuttu færi sem lá óvígur eftir en jafnaði sig þó stuttu seinna.

Tíðindalítill fyrri hálfleikur þar sem gestirnir áttu hættulegri færi og KA liðið ekki að spila nægilega vel og lítil hreyfing á liðinu og illa gekk að opna vörn Fram á síðasta þriðjungi vallarins.

KA liðið mætti hins vegar tvíelft til síðari hálfleiks og gerðu hreinlega út um leikinn á 13 mínútna kafla. Ballið byrjaði á 59. mínútu þegar að Hallgrímur Mar átti frábæra sendingu inn fyrir vörn gestana á Elfar Árna stakk sér fram fyrir varnarmann Fram og komst einn gegn markverði Framara og kláraði hann færið af stóískri ró og lagði boltann í markið.

Við markið fékk KA liðið svo sannarlega vind í seglinn og keyrði hreinlega á Framarana hvaða eftir annað. Skömmu síðar jók KA forystuna, þá átti Juraj hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Aleksandar Trninic sem skallaði knöttinn í fjærhornið örugglega í sínum fyrsta deildarleik fyrir KA.

Náðarhöggið kom svo 6 mínútum síðar þegar að Callum átti fyrigjöf fyrir markið frá vinstri sem Elfar Árni framlengdi á fjærstöngina þar sem Almarr nokkur Ormarsson lúrði á fjærstönginni og nelgdi boltanum í netið af stuttu færi. 

KA liðið var síðan ekki hætt þó svo staðan væri vænleg. Hallgrímur Mar var gríðarlega sprækur síðasta korterið og átti tvær hættulegar marktilraunir. Fyrst þegar að Hrannar Björn átti góða fyrirgjöf frá hægri sem Grímsi skallaði í slá og síðan undir lok leiksins þegar að hann átti mjög gott skot fyrir utan teig þar sem boltinn stefndi í bláhornið en Stefano markvörður Framara varði meistaralega í horn.

Eftir þetta fjaraði leikurinn út og flottur 3-0 sigur KA í fyrsta leik staðreynd. KA liðið sýndi svo sannarlega hvað í þá er spunnið í síðari hálfleik eftir fremur dapran fyrri hálfleik og sóttu stanslaust að marki Framara. Fyrsta markið var gífurlega mikilvægt fyrir KA og breyttist leikurinn gjörsamlega við það.

KA-maður leiksins: Archange Nkumu (Var líkt og á síðasta tímabili feykilega öflugur á miðjunni og hélt boltanum vel og dreifði spili liðsins af öryggi.)

Næsti leikur KA verður á þriðjudaginn í Borgunarbikarnum þegar að Tindastóll koma í heimsókn í 2. umferð Borgunarbikarsins og hefst leikurinn kl. 19.00 og verður hér KA-vellinum.

Næsti leikur KA í Inkasso-deildinni verður síðan laugardaginn eftir viku í Hafnarfirði. Við sækjum þá Hauka heim og hefst sá leikur kl. 16.00 og verður á Ásvöllum. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is