Seier'n er vår! - Sigur í fyrsta Evrópuverkefninu

Handbolti
Seier'n er vår! - Sigur í fyrsta Evrópuverkefninu
KA gekk frá einvíginu í KA-Heimilinu

Handknattleikslið KA varð Bikarmeistari árið 1995 og tryggði með því þátttökurétt í Evrópukeppni Bikarhafa tímabilið 1995-1996. Þetta var í fyrsta skiptið sem KA tók þátt í Evrópukeppni í handbolta og var eftirvæntingin eðlilega mikil hjá liðinu sem og stuðningsmönnum KA.

Andstæðingar liðsins í fyrstu umferð var norska liðið Viking Stavanger og fór fyrri leikur liðanna fram í Noregi. Stemningin fyrir leiknum var svo mikil að tekið var leiguflug þar sem vel á annað hundrað stuðningsmenn KA flugu með liðinu í leikinn og sáu til þess að liðið fékk frábæran stuðning í leiknum.


Fjölmargir stuðningsmenn KA fylgdu liðinu til Noregs og studdu við bakið á liðinu sem náði góðum úrslitum fyrir síðari leikinn

Róbert Julian Duranona gerði fyrsta Evrópumark KA liðsins er hann minnkaði muninn í 2-1 eftir rúmlega þriggja mínútna leik. Norðmennirnir komust í kjölfarið í 6-2 og hélst það forskot næstu mínúturnar. En KA menn komust betur í takt við leikinn eftir erfiða byrjun og náðu að minnka muninn í eitt mark þegar skammt lifði fyrri hálfleiks, en heimamenn áttu síðustu tvö mörkin fyrir hálfleiksflautið og var hálfleiksstaðan því 14-11.

Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks en frábær kafli KA manna þar sem liðið skoraði 6 mörk í röð sneri leiknum við og var staðan allt í einu orðin 16-19 KA í vil. Viking svaraði vel og jafnaði í 20-20 en aftur náðu KA menn að ýta þeim frá og þegar vel var liðið á síðari hálfleikinn var staðan 20-22 fyrir KA og útlitið gott. En heimamenn gáfu allt í lokamínúturnar og náðu að lokum að innbyrða 24-23 sigur.

Viss klaufaskapur hjá KA-mönnum að sigra ekki leikinn eftir að útlitið var gott skömmu fyrir leikslok en ekki er hægt að neita því að liðið stóð sig vel og var í frábærri stöðu til að fara áfram í næstu umferð.


Stemningin í KA-Heimilinu var ólýsanleg og hafði mikið að segja þegar KA liðið valtaði yfir Norsku Bikarmeistarana

Stuðningsmenn KA stóðu svo sannarlega fyrir sínu í heimaleiknum því KA-Heimilið var troðfullt og hefði varla verið hægt að koma fyrir einni manneskju í viðbót í húsið sem fylltist löngu fyrir leik. Stuðningurinn sem liðið fékk frá fyrstu mínútu og til leiksloka var slíkur að Norsku Bikarmeistararnir koðnuðu niður og KA liðið gekk á lagið.

KA liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og ekki leið á löngu uns staðan var orðin 7-3 og síðar 10-5. Krafturinn í KA liðinu var mikill og með dyggum stuðningi áhorfenda var ljóst frá upphafsmínútum leiksins að heimamenn myndu klára dæmið og fara áfram í næstu umferð. Staðan í hálfleik var 12-8 og síðari hálfleikurinn í raun formsatriði.

Frábær byrjun á síðari hálfleik gerði svo endanlega út um litlar vonir gestanna frá Noregi en KA skoraði fyrstu 4 mörkin og komst fljótlega í 10 marka forskot. Þessi munur hélst milli liðanna næstu mínútur en gestirnir náðu að laga stöðuna örlítið undir lokin og öruggur 27-20 sigur KA staðreynd og liðið komið áfram í næstu umferð.

Til að strá enn frekara salti í sárin hófu stuðningsmenn KA að syngja hástöfum í síðari hálfleik "Seier'n er vår" eða "sigurinn er okkar" en þetta var þekktur sigursöngur norskra íþróttaáhugamanna. Það kom greinilega á Norðmennina að fá þennan söng í andlitið og vakti meðal annars upp reiði Norskra blaðamanna í KA-Heimilinu.

Það er ljóst að KA er með hörkulið og þegar áhorfendur eru í sama stuði og leikmenn er ljóst að fá lið munu geta sótt sigur í KA-Heimilið. Norðmennirnir í Viking eru með fínt lið en KA var einfaldlega betra og þrátt fyrir að liðið hafði ekki leikið áður í Evrópukeppni var ljóst að liðið var til alls líklegt í keppninni.


Leó Örn og félagar í KA slógu út norsku víkingana með sigri í KA-Heimilinu

Umfjöllun Morgunblaðsins um útileikinn

Umfjöllun Dags um útileikinn

Umfjöllun Morgunblaðsins um heimaleikinn

Umfjöllun Dags um heimaleikinn


Umfjöllun DV um heimaleikinn


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is