Anna Þyrí náði 5. sæti á EM með U-19

Handbolti
Anna Þyrí náði 5. sæti á EM með U-19
Frábær árangur hjá mögnuðu liði (mynd: HSÍ)

Anna Þyrí Halldórsdóttir og félagar hennar í U-19 ára landsliði Íslands gerði sér lítið fyrir og náði 5. sætinu á Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu. Stelpurnar hófu mótið vel með því að leggja Grikkland að velli 22-14 eftir að hafa leitt 13-7 í hálfleik. Því næst kom skellur gegn heimastúlkum í Búlgaríu þar sem leikurinn tapaðist í fyrri hálfleik, að honum loknum var staðan 15-8 og lokatölur 24-16 fyrir Búlgaríu.

Næsti leikur var gegn sterku liði Serba, stelpurnar stóðu vel í þeim Serbnesku í upphafi og var staðan jöfn 6-6. En Þá skildu leiðir og að lokum tapaðist leikurinn stórt, 14-22. Í lokaleik riðlakeppninnar mættu stelpurnar Stóra Bretlandi og það var aldrei spurning hvar sigurinn í þeim leik myndi enda. Stelpurnar komust í 10-0 og unnu að lokum 39-12 sigur.

Ísland endaði þar með í 3. sæti í riðlinum og keppti um 5.-8. sætið á mótinu. Þar mættu stelpurnar Finnlandi og þær leiddu allan leikinn en tókst þó aldrei að hrista þær finnsku alveg af sér. Lokatölur voru 23-19 og stelpurnar komnar í leikinn um 5. sætið á mótinu.

Þar mættu stelpurnar Grikklandi sem þær höfðu unnið sannfærandi í riðlakeppninni. Leikurinn var jafn í upphafi en er leið á leikinn jókst munurinn og hálfleikstölur voru 18-12 Íslandi ívil. Lokatölur urðu svo 29-22 og 5. sætið staðreynd.

Mjög góður árangur hjá stelpunum og ljóst að þær mega vera mjög stoltar af þessari niðurstöðu. Vissulega hefði verið gaman að ná að hanga betur í Búlgörum og Serbum en þar eru á ferðinni gríðarlega sterk lið og gaman að sjá hvort okkur takist að minnka muninn á komandi árum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is