Anna Þyrí og Einar Birgir framlengja

Handbolti
Anna Þyrí og Einar Birgir framlengja
Mikilvægt skref fyrir næsta handboltavetur!

Anna Þyrí Halldórsdóttir og Einar Birgir Stefánsson skrifuðu í dag undir nýjan tveggja ára samning við KA og KA/Þór. Bæði eru þau lykilleikmenn hjá liðunum og gríðarlega jákvætt að halda þeim báðum áfram innan okkar raða.

Anna Þyrí er 21 ára gömul en hefur þrátt fyrir ungan aldur verið í lykilhlutverki í KA/Þór undanfarin ár en hún hefur alls leikið 104 leiki fyrir liðið frá því hún lék sinn fyrsta leik veturinn 2017-2018. Auk þess að vera frábær á línunni í sókn þá er hún hrikalega öflug í vörninni og hefur undanfarin ár verið meðal efstu leikmanna Olísdeildar þegar kemur að löglegum stöðvunum.

Einar Birgir er 25 ára gamall og leikur rétt eins og Anna á línunni en hann lék sinn fyrsta leik fyrir KA veturinn 2017-2018 og hefur nú leikið alls 109 leiki fyrir félagið. Einar Birgir hefur bætt sig gríðarlega á undanförnum árum og átti frábært tímabil á nýliðnum vetri. Einar er gríðarlega öflugur varnarmaður en hann var í 5. sæti yfir flestar löglegar stöðvanir í Olísdeildinni.

Við fögnum því svo sannarlega að halda þeim Önnu og Einari áfram innan okkar raða og hlökkum svo sannarlega til komandi tímabils í handboltanum. Samningarnir voru undirritaðir í M-Sport í Kaupangi en handknattleiksdeild KA skrifaði á dögunum undir samning við Macron og munu KA og KA/Þór því leika í fatnaði frá Macron næstu fjögur árin. M-Sport verður þjónustuaðilinn fyrir Macron fatnaðinn hér fyrir norðan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is