Blaklandsliðin luku leik í forkeppni EM í kvöld

Blak
Blaklandsliðin luku leik í forkeppni EM í kvöld
Glæsilegir fulltrúar KA í blaklandsliðunum

Karla- og kvennalandslið Íslands í blaki luku í kvöld leik í undankeppni EM. Liðin hafa undanfarnar vikur undirbúið sig fyrir lokaleikina í undankeppninni sem spilaðir voru í vikunni. Hjá körlunum átti KA tvo fulltrúa en það voru þeir Alexander Arnar Þórisson og Sigþór Helgason en hjá konunum var Gígja Guðnadóttir fulltrúi KA.

Fyrri leikur karlalandsliðsins í þessari törn var útileikur gegn Moldavíu en heimamenn þurftu á sigri að halda í baráttunni um sæti á EM. Leikurinn fór jafnt af stað og var staðan til að mynda jöfn 9-9 en þá kom slæmur kafli og Moldavíumenn unnu 25-17 sigur í fyrstu hrinunni.

Þrátt fyrir góða kafla þá reyndist lið heimamanna einfaldlega sterkara og vann næstu tvær hrinur 25-18 og 25-11 og leikinn því samanlagt 3-0. Alexander Arnar var í byrjunarliði Íslands og var stigahæsti leikmaður liðsins með 8 stig. Sigþór fékk einnig að spreyta sig en hann kom inn á í þriðju hrinu leiksins.

Síðari leikurinn fór fram í kvöld þegar strákarnir tóku á móti gríðarlega sterku liði Slóvakíu sem var með fullt hús stiga fyrir leikinn. Íslenska liðið gerði mjög vel í að halda í við hina öflugu andstæðinga en þrátt fyrir flottan leik var niðurstaðan 0-3 tap þar sem gestirnir unnu 18-25, 18-25 og 20-25.

Stelpurnar léku fyrst gegn Slóveníu á útivelli og má með sanni segja að við ramman reip hafi verið að draga. Þær slóvensku unnu hrinurnar 25-12, 25-11 og 25-12 og leikinn því 3-0. Gígja lék í þriðju hrinunni og stóð fyrir sínu.

Síðari leikurinn var svo heimaleikur gegn Belgíu í kvöld. Belgar hafa á að skipa gríðarlega sterku liði og höfðu ekki tapað hrinu í keppninni fyrir kvöldið. Því miður varð engin breyting þar á en gestirnir unnu hrinurnar þrjár afar sannfærandi 4-25, 7-25 og 6-25.

Bæði lið enda því neðst í sínum riðli án stiga en þetta var í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt í undankeppni EM og klárt mál að þessi undankeppni var mikill skóli bæði fyrir leikmenn og blaksambandið í heild sinni. Mikið og gott starf hefur verið unnið í kringum landsliðin undanfarin ár og ljóst að framtíðin er björt ef áfram verður haldið rétt á spöðunum.

Mjög jákvætt er að sjá að okkar fulltrúar hafi allir leikið stór hlutverk í leikjunum auk þess sem fyrrum leikmenn KA skipa stóran sess í landsliðunum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is