Tveir frábærir sigrar KA á HK (myndir)

Blak
Tveir frábærir sigrar KA á HK (myndir)
Blakliðin okkar áttu magnaða helgi (mynd: EBF)

Karla- og kvennalið KA tóku á móti HK í blakinu í gær en þarna mættust einmitt liðin sem börðust um alla titlana á síðustu leiktíð. Karlarnir riðu á vaðið en KA þurfti á sigri að halda til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni en HK var á toppi deildarinnar.

KA liðið sem hefur sýnt á köflum flotta takta í vetur en skort stöðugleika vann fyrri leik liðanna í KA-Heimilinu en HK hafði fyrir leik helgarinnar aðeins tapað tveimur leikjum í vetur. Fyrsta hrinan var stál í stál og var virkilega gaman að fylgjast með liðunum berjast um sigurinn í hrinunni. Á endanum vann KA nauman 25-23 sigur og tók því forystuna 1-0.

Önnur hrinan spilaðist ákaflega svipað, liðin skiptust á að leiða og munaði aldrei meira en fjórum stigum. Eftir magnaðan lokakafla fór KA aftur með eins lítinn sigur og hægt er, 25-23, og því komið í lykilstöðu 2-0.

Í þriðju hrinu tókst KA liðinu að halda forystunni nær allan tímann þó gestirnir hafi aldrei verið langt undan. Með flottum kafla undir lokin komust strákarnir í 23-17 og unnu að lokum 25-21 sigur og þar með 3-0 samanlagt.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá karlaleiknum

Risastór úrslit og KA hefur því lagt HK tvívegis að velli í vetur. Sigurinn tryggði KA liðinu einnig sæti í úrslitakeppninni sem er frábært og er liðið heldur betur að stíga upp núna þegar mest á reynir. Þá var ákaflega jákvætt að sjá hvernig sumir leikmenn stigu upp og sýndu hvað í þeim býr. Miguel Mateo Castrillo lék aðeins fyrstu hrinuna en það kom heldur betur ekki að sök.

Alexander Arnar Þórisson var stigahæstur hjá KA með 13 stig, Gunnar Pálmi Hannesson geðri 9, Benedikt Rúnar Valtýsson 6, Miguel Mateo Castrillo 6, Filip Pawel Szewczyk 5, Hermann Biering Ottósson 4 og Gísli Marteinn Baldvinsson 3.

Næsti leikur KA er strax á miðvikudaginn en þá sækja strákarnir einmitt HK heim í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Það má búast við svakalegum leik og í raun sorglegt að annað af þessum mögnuðu liðum muni ekki fara í úrslitahelgina. Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta í Kópavoginn og styðja KA liðið til sigurs!

Í kjölfar karlaleiksins tókust kvennalið félaganna á en KA liðið er á toppi deildarinnar en eftir oddahrinusigur liðsins á Álftnesingum í síðustu umferð og tap gegn Aftureldingu þar áður var forskot liðsins á toppnum komið niður í þrjú stig. Það var því ansi mikilvægt að sækja öll stigin í leiknum gegn öflugu liði HK.

Ekki var byrjunin á leiknum þó eins og við hefðum viljað það en HK komst í 0-4 og stuttu síðar í 2-11. Okkar lið átti engin svör við sterkum leik HK liðsins og tapaðist hrinan 16-25. Það fór eðlilega um áhorfendur í KA-Heimilinu en sem betur fer héldu stelpurnar ró sinni og komu heldur betur til baka.

KA hóf hrinuna á að komast í 5-1 og síðar 15-8. Eftir þetta var aldrei spurning hvoru meginn sigurinn myndi enda og KA jafnaði því metin í 1-1 með 25-14 stórsigri og allt annað að sjá til þeirra. Sóknarlínan fór í gang auk þess sem hávörnin tók bitið úr sóknarleik HK sem hafði farið illa með okkur í fyrstu hrinu.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá kvennaleiknum

Meira jafnræði var svo í þriðju hrinunni en eftir sveiflur í upphafi náði KA liðið fjögurra til fimm stiga forystu sem hélst að mestu og stelpurnar unnu að lokum 25-21 sigur og því komnar í 2-1 og með pálmann í höndunum eftir þessa hræðilegu fyrstu hrinu.

Það leit svo allt út fyrir að HK hefði kastað inn hvíta handklæðinu í fjórðu hrinu því KA liðið gjörsamlega keyrði yfir leikinn. Stelpurnar komust í 21-10 og virtist í raun eina spurningin vera hversu stór sigur KA liðsins yrði. En þá kviknaði líf í gestunum og þær sem höfðu í raun engu að tapa tókst á undraverðan hátt að knýja fram upphækkun með því að jafna í 24-24. En sem betur fer komust þær ekki lengra og KA vann 26-24 sigur.

KA vann þar með leikinn 3-1 og sótti öll stigin þrjú sem skiptir sköpum í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn. KA er því áfram með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir en þurfa að halda áfram að klára sína leiki því Afturelding hefur sýnt það að þær eru klárar að nýta sér öll mistök sem KA liðið gerir.

Helena Kristín Gunnarsdóttir var stigahæst í liði KA með 19 stig, Paula del Olmo Gomez gerði 14, Nera Mateljan 9, Gígja Guðnadóttir 6, Heiðrún Júlía Gunnarsdóttir 5, Jóna Margrét Arnarsdóttir 3, Heiðbrá Björgvinsdótti 1 og Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir 1 stig.

Næsti leikur hjá stelpunum er rétt eins og hjá strákunum stórleikur í bikarnum en þá sækja þær Aftureldingu heim í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Leikurinn fer fram miðvikudaginn 26. febrúar og rétt eins og hjá körlunum er í raun alveg agalegt að annað af þessum liðum muni ekki fara áfram í bikarúrslitahelgina. Þarna mætast tvö bestu blaklið landsins og klárt að stelpurnar munu þurfa að hafa ansi mikið fyrir því að komast áfram í undanúrslitin.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is