Tvöfaldur leikdagur í blakinu í Fagralundi

Blak
Tvöfaldur leikdagur í blakinu í Fagralundi
Maria og Arnar stefna á sigra í dag!

Það er alvöru verkefni sem er framundan hjá blakliðum KA í dag þegar bæði karla- og kvennalið KA sækja HK heim í Fagralund í Kópavogi. Strákarnir ríða á vaðið klukkan 13:00 og stelpurnar taka svo við í kjölfarið klukkan 15:00 og hvetjum við að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta og styðja okkar lið.

KA og HK börðust um alla titlana á síðustu leiktíð en eins og frægt er orðið vann KA þrefalt auk þess að leggja HK að velli fyrir núverandi tímabil í slag meistara meistaranna. KA er á toppi deildarinnar, búið að vinna alla sex leiki sína til þessa en HK hefur aðeins leikið tvo leiki og vann annan þeirra. Það má búast við krefjandi leik enda bestu blaklið landsins að mætast.

Það er jafnari baráttan á toppi kvennadeildarinnar en KA hefur unnið fimm leiki og tapað einum í oddahrinu. HK er hinsvegar með fullt hús stiga eftir fimm leiki og hefur verið að spila mjög vel til þessa. Það er klárt að leikur liðanna verður flottur og hart verður barist.

Þessi blakveisla verður svo endurtekin á morgun er bæði karla- og kvennaliðin mætast á ný í Fagralundi á sama tíma.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is