Flottur árangur Spaðadeildar á Norðurlandsmótinu

Tennis og badminton
Flottur árangur Spaðadeildar á Norðurlandsmótinu
Glæsilegir fulltrúar KA á mótinu

Uppgangur Spaðadeildar KA heldur áfram en um helgina fór fram Norðurlandsmótið í Badminton á Siglufirði. Keppendur á vegum KA unnu þó nokkra verðlaunapeninga og þá vannst einn bikar á þessu skemmtilega móti. Alls átti KA 10 keppendur á mótinu og er mjög gaman að sjá aukinguna hjá þessari ungu en kraftmiklu deild innan KA.

Stefán Þór Árnason vann til gullverðlauna í tvíliðaleik 11 ára og yngri en hann lék með Antoni Elíasi Viðarsyni úr TBS. Viktor Smári Inguson varð í 2. sæti í tvíliðaleik 13 ára og yngri en hann lék með Ými Loga Óðinssyni úr Samherjum.

Þá vann Viktor Smári gull í aukaflokki U-13 ára einliðaleiks, Kristófer Darri Sveinsson fékk silfur í aukaflokki U-11 ára einliðaleiks og þá fékk Jóhann Kjerulf silfur í aukaflokki einliðaleiks fullorðinna.

Óskum fulltrúum KA til hamingju með vel heppnað mót en gullverðlaun Stefáns Þórs eru þau fyrstu sem iðkandi í Spaðadeild KA hampar. Það verður mjög gaman að fylgjast áfram með framvindu keppenda okkar og Spaðadeildar í heild sinni á næstunni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is