Frábær sigur á HK og KA/Þór á toppnum

Handbolti
Frábær sigur á HK og KA/Þór á toppnum
(mynd: Egill Bjarni)

KA/Þór sótti HK heim í Olísdeild kvenna í handboltanum í gær en leiknum hafði verið frestað tvívegis og stelpurnar líklega ansi fegnar að komast loksins suður og í leikinn. Í millitíðinni hafði Fram skotist upp fyrir stelpurnar og á topp deildarinnar.

Það var því smá pressa á stelpunum að endurheimta toppsætið en framundan er landsleikjahlé áður en síðustu tvær umferðirnar í deildinni fara fram. HK er á sama tíma í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni og mátti því búast við krefjandi leik.

En það var hinsvegar aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda í Kórnum í gær. KA/Þór gerði fyrstu þrjú mörk leiksins og bætti jafnt og þétt við forskotið út fyrri hálfleikinn. Stelpurnar spiluðu frábæra vörn og refsuðu HK hægri vinstri uns staðan var orðin 4-14 en hálfleikstölur voru 6-15.

Stelpurnar gleyma líklega seint leik gegn HK fyrir nokkrum árum þar sem stelpurnar leiddu með sex mörkum er 19 mínútur lifðu leiks en skoruðu ekki mark það sem eftir var og töpuðu leiknum á endanum með einu marki.

Þær ætluðu greinilega ekki að endurtaka þann leik og náðu heimastúlkur aldrei að ógna forystu KA/Þórs. Það var ekki fyrr en á lokamínútunum að munurinn minnkaði niður í sex mörk og 23-29 sigur staðreynd. Afar mikilvæg tvö stig í hús og afar sannfærandi frammistaða hjá stelpunum.

Rut Jónsdóttir var markahæst með 9 mörk, þar af 5 úr vítum. Aldís Ásta Heimisdóttir átti stórleik og gerði 8 mörk, Ásdís Guðmundsdóttir gerði 5 mörk, þar af 1 úr víti, Rakel Sara Elvarsdóttir 3 mörk, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1 og þá gerði Anna Marý Jónsdóttir 1 mark og kom sterk inn.

Matea Lonac varði 11 skot í markinu og var með 39% markvörslu. Þá varði Sunna Guðrún Pétursdóttir 1 skot á lokakaflanum.

Stelpurnar eru því aftur komnar á toppinn með eins stigs forskot á Fram þegar tvær umferðir eru eftir. Eftir landsleikjapásu eiga stelpurnar heimaleik gegn Val og í lokaumferðinni mæta þær Fram á útivelli. Það er því nóg eftir til að hampa Deildarmeistaratitlinum en það er alveg ljóst að ef liðið heldur áfram að spila sinn leik getur allt gerst.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is