Gauti Gunnarsson til liðs við KA

Handbolti
Gauti Gunnarsson til liðs við KA
Velkominn í KA Gauti!

Gauti Gunnarsson skrifaði í dag undir tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og mun því leika með liðinu á næstu leiktíð. Gauti er gríðarlega spennandi tvítugur örvhentur leikmaður sem gengur til liðs við KA frá ÍBV.

Gauti er fastamaður í U20 ára landsliði Íslands og var einmitt í dag valinn í lokahóp liðsins sem tekur þátt á EM í Portúgal 5.-18. júlí næstkomandi. Þá lék hann vel með ÍBV á nýloknu tímabili þar sem ÍBV fór alla leið í úrslit úrslitakeppninnar.

Gauti verður án nokkurs vafa frábær viðbót við þá Allan Norðberg og Einar Rafn Eiðsson á hægri vængnum á komandi tímabili. Mikil uppbygging hefur verið í starfi handknattleiksdeildar undanfarin ár  en KA lék til Bikarúrslita í vetur og lék auk þess annað árið í röð í úrslitakeppninni og ekki nokkur spurning að við ætlum að halda áfram að gefa í á komandi vetri.

Samningurinn var undirritaður í M-Sport í Kaupangi en handknattleiksdeild KA skrifaði á dögunum undir samning við Macron og mun því leika í fatnaði frá Macron næstu fjögur árin. M-Sport verður þjónustuaðilinn fyrir Macron fatnaðinn hér fyrir norðan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is