KA knúði fram ævintýralegt stig

Handbolti
KA knúði fram ævintýralegt stig
Tarik var magnaður í dag (mynd: Þórir Tryggva)

KA tók á móti ÍR í KA-Heimilinu í dag i 6. umferð Olís deildar karla. KA liðið sem hafði byrjað tímabilið svo vel hafði tapað síðustu þremur leikjum á sama tíma og gestirnir úr Breiðholtinu voru aðeins með 2 stig. Það var því ljóst að það voru mikilvæg stig í húfi fyrir bæði lið og bar leikurinn svo sannarlega merki um það.

KA liðið fór frábærlega af stað og komst strax í 3-0 en ÍR-ingar náðu fljótt áttum og jöfnuðu í 4-4. Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn og spennandi en KA leiddi þó leikinn ávallt og var spilamennska liðsins mjög góð og hálfleikstölurnar 12-10 voru sanngjarnar.

Það sem hefur fellt liðið að undanförnu eru of margir glataðir boltar og virtist vera að menn höfðu farið vel yfir þá hluti því þeir voru ekki margir í fyrri hálfleik. Hinsvegar snerist dæmið við í upphafi síðari hálfleiks og strákarnir lentu á vegg.

Gestirnir nýttu sér það og komust yfir 15-16 er 20 mínútur lifðu leiks og virtust vera komnir með leikinn í sínar hendur. Forysta ÍR jókst og þegar rúmar sex mínútur voru eftir leiddu þeir 20-24 og ekki mikið sem benti til þess að KA liðið myndi fá eitthvað útúr leiknum.

En Tarik Kasumovic var sjóðandi heitur í vinstri skyttunni og skoraði mikilvæg mörk. Jovan Kukobat í marki KA var einnig í miklum ham en hann varði alls 17 skot í leiknum og mörg þeirra úr dauðafærum. Mikið líf kviknaði í KA-Heimilinu og með hverju marki óx trúin á verkefnið.

Áki Egilsnes minnkaði muninn í 24-25 á lokamínútunni, í kjölfarið varði Jovan Kukobat og á lokasekúndunni sjálfri tókst að búa til gott skotfæri fyrir Tarik sem þrumaði boltanum í netið og allt varð gjörsamlega vitlaust í KA-Heimilinu!

Töfrarnir í KA-Heimilinu halda áfram að sanna tilveru sína og frábært stig staðreynd eftir að leikurinn var nánast tapaður. Í heildina litið verður þó að viðurkennast að KA liðið var betri aðilinn lengstum og hefði með stöðugri leik hæglega getað sótt öll stigin.

En gríðarlega jákvætt að sjá menn hafa trú á verkefninu og sækja stig sem gæti vegið þungt. Deildin er gríðarlega jöfn auk þess sem það er gott andlega að fá stig eftir þrjá tapleiki þar á undan.

Mörk KA: Tarik Kasumovic 11 mörk, Áki Egilsnes 6, Sigþór Gunnar Jónsson 3, Allan Norðberg 2, Daníel Matthíasson 1, Dagur Gautason 1 og Einar Birgir Stefánsson 1 mark.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is