KA mætir í Kaplakrika í dag

Handbolti
KA mætir í Kaplakrika í dag
Mikilvæg stig í boði í kvöld

Baráttan heldur áfram í Olís deild karla í handbolta í dag þegar KA sækir FH-inga heim í Kaplakrikann klukkan 16:00. Við bendum á að leikurinn verður hvergi sýndur þannig að við hvetjum alla þá KA-menn sem eiga möguleika á að mæta á leikinn að drífa sig í Kaplakrika og styðja okkar lið til sigurs.

Leikur dagsins er síðasti leikur liðanna í fyrri umferð deildarinnar og því deildin hálfnuð að honum loknum. FH sem er með 13 stig í 4. sæti deildarinnar endurheimtir KA-manninn Ásbjörn Friðriksson eftir leikbann en liðið tapaði í hans fjarveru gegn Akureyri í síðustu umferð.

KA liðið er hinsvegar með 8 stig í 7. sætinu og getur með sigri komið sér í góða stöðu fyrir síðari helminginn en aðeins eru þrjú stig niður í neðsta sæti deildarinnar. Það skiptir hreinlega öllu máli að reyna að kroppa í stig í öllum leikjum enda baráttan í deildinni gríðarleg og ljóst að tvö sterk lið munu falla úr deildinni í vetur.

Í síðustu tveimur útileikjum hafa strákarnir sótt stig til Selfoss sem og að vinna sigur í Vestmannaeyjum. Það hefur því verið lítill útivallarskrekkur og má búast við hörkuleik í Kaplakrikanum í dag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is