KA með 13 fulltrúa í landsliðsverkefni

Handbolti
KA með 13 fulltrúa í landsliðsverkefni
Blómlegt starf í handboltanum um þessar mundir!

Þó að handboltatímabilið sé að fara í smá jólafrí þá þýðir það ekki að allir muni taka sér frí frá þjálfun því HSÍ hefur boðað öll yngri landslið sín á æfingar hvoru megin við áramótin auk þess sem að Hæfileikamótun HSÍ og Bláa Lónsins fer fram.

Handknattleiksdeild KA á hvorki fleiri né færri en 13 fulltrúa í þessum hópum sem er enn ein fjöðurinn í hatt deildarinnar. Við óskum þeim öllum til hamingju með valið sem og góðs gengis í komandi verkefnum.

Sigþór Gunnar Jónsson mun æfa með U-21 árs landsliði karla dagana 2.-6. janúar en hann lék stórt hlutverk með liðinu á Evrópumeistaramótinu í sumar þar sem Ísland endaði í 7. sæti.

Dagur Gautason og Svavar Sigmundsson eru báðir í U-19 ára landsliðinu sem mun taka þátt á Sparkassen Cup milli jóla og nýárs. Dagur hefur verið í lykilhlutverki með landsliðinu og var í úrvalsliði EM í sumar þar sem Ísland var í 2. sæti auk þess sem Ísland vann Sparkassen Cup í fyrra. Svavar kemur nýr inn í hópinn og verður gaman að sjá hann koma inn í gríðarsterkt lið Íslands.

Anna Þyri Halldórsdóttir er í U-19 ára landsliðinu sem æfir dagana 3.-5. janúar næstkomandi. Anna hefur komið af gríðarlegum krafti inn í Olís deildarlið KA/Þórs og hefur í kjölfarið komið sér í landsliðshópinn.

Arnór Ísak Haddsson mun hafa nóg að gera á næstunni en U-17 ára landsliðið mun æfa dagana 27.-30. desember sem og 2.-6. janúar. Arnór er lykilmaður í landsliðinu sem varð í 2. sæti á sterku móti í Grikklandi fyrr á árinu.

Rakel Sara Elvarsdóttir er fulltrúi KA/Þórs í U-17 ára landsliðinu kvennamegin en hún er aðeins 15 ára gömul en hefur engu að síður tekið þátt í öllum leikjum meistaraflokks á tímabilinu. U-17 landsliðið mun æfa dagana 4.-6. janúar.

Dagana 29.-30. desember fer fram Hæfileikamótun HSÍ og Bláa Lónsins fyrir unga og efnilega stráka og stelpur. Hjá strákunum eru þeir Ágúst Ívar Árnason, Bjarki Jóhannsson, Marinó Þorri Hauksson og Skarphéðinn Ívar Einarsson fulltrúar KA en hjá stelpunum voru þær Aþena Sif Einvarðsdóttir, Natalía Hrund Baldursdóttir og Telma Ósk Þórhallsdóttir valdar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is