KA/Þór Deildarmeistari (myndir og myndband)

Handbolti
KA/Þór Deildarmeistari (myndir og myndband)
Deildarmeistarar! (mynd: Jóhann G. Kristinsson)

KA/Þór gerði sér lítið fyrir og tryggði sér Deildarmeistaratitilinn um helgina. Stelpurnar sóttu ríkjandi meistara Fram heim í hreinum úrslitaleik og sýndu enn og aftur frábæran karakter þegar þær komu til baka úr erfiðri stöðu og knúðu fram jafntefli sem dugði til að tryggja efsta sætið.

Sigurgleðin var eðlilega allsráðandi enda voru stelpurnar að tryggja fyrsta stóra titilinn í sögu félagsins en í haust hömpuðu þær titlinum Meistarar Meistaranna og hafa því aldeilis skrifað nýja sögu í kvennahandboltanum á Akureyri í vetur.


Stelpunum var vel fagnað þegar þær mættu norður með bikarinn góða

Leikurinn var jafn til að byrja með en Fram hafði þó yfirhöndina. Þegar leið á fyrri hálfleikinn tókst heimastúlkum að stinga aðeins af og leiddu 17-12 í hléinu. Varnarleikur okkar liðs og markvarsla var ekki eins og við höfum átt að venjast í vetur og alveg klárt að stelpurnar myndu svara fyrir sig í þeim síðari.

Enda small þetta allt saman í þeim síðari, Fram gerði að lokum aðeins 10 mörk í síðari hálfleiknum og jafnt og þétt minnkaði forysta þeirra. Loks tókst að jafna metin í 24-24 er tíu mínútur lifðu leiks og eftir það var jafnt á öllum tölum. Stelpurnar náðu að standa síðustu vörnina og þurftu því ekki að sækja á markið á lokasekúndunum og sigldu heim 27-27 jafntefli og KA/Þór því Deildarmeistari með betri stöðu í innbyrðisviðureignum sínum gegn Fram.

Rakel Sara Elvarsdóttir átti ótrúlegan leik en hún gerði 9 mörk og skoraði úr öllum sínum skotum en eins og oft áður var það Rut Jónsdóttir sem dró vagninn þegar mest á reyndi en hún skoraði 8 mörk og átti ófáar stoðsendingar. Ásdís Guðmundsdóttir gerði 4, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2 og Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1 mark. Matea Lonac steig upp í síðari hálfleik og varði 7 skot.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Jóhanns G. Kristinssonar frá fagnaðarlátunum

Jóhann G. Kristinsson ljósmyndari var á svæðinu og þökkum við honum kærlega fyrir myndaveislu frá sigurhátíðinni í Safamýri.

Stórkostlegur endir á frábærri deildarkeppni hjá stelpunum en þær hafa frá fyrsta leik í vetur spilað frábæran handbolta, töpuðu aðeins einum leik og sýndu aftur og aftur frábæran karakter. Framundan er sjálf úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn og verður heldur betur spennandi að fylgjast með okkar magnaða liði þar.

Stelpurnar eru komnar sjálfkrafa í undanúrslitin og hafa heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Nú fá þær smá tíma til að anda og koma sér niður á jörðina þangað til keppnin um þann stóra hefst, innilega til hamingju KA/Þór!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is