KA/Þór fer í bikarúrslitahelgina

Handbolti

KA/Þór sótti Stjörnuna heim í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins í kvöld en liðin börðust hart á síðustu leiktíð og mátti búast við ansi erfiðum leik. KA/Þór gerði sér hinsvegar lítið fyrir og vann sannfærandi sigur 23-28 og tryggði sér sæti í bikarúrslitahelginni.

Stjarnan byrjaði leikinn betur og hafði yfirhöndina. Stelpurnar gerðu sig sekar um of marga tapaða bolta og þá vantaði bit í varnarleikinn. En þegar líða fór á fyrri hálfleikinn tókst liðinu að snúa dæminu við og keyrðu á heimakonur. Með agaðri leik tókst KA/Þór að ná forystunni og leiddi 11-12 er liðin gengu til búningsherbergja sinna.

Það var svo aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda í þeim síðari en með frábærum varnarleik fór allt bit úr liði Stjörnunnar og KA/Þór tók gjörsamlega yfir leikinn. Mestur varð munurinn níu mörk á liðunum en Stjarnan náði að laga stöðuna og lokatölur 23-28 sigur KA/Þórs.

Stjarnan er með hörkulið í vetur og það er virkilega sterkt að leggja liðið að velli jafn sannfærandi og raun ber vitni, sérstaklega eftir brösuga byrjun á leiknum. Stelpurnar eru nú komnar í undanúrslit bikarsins og mæta þar FH fimmtudaginn 30. september. Úrslitaleikurinn fer svo fram 2. október en í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við Fram og Valur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is