KA/Þór leiðir fyrir síðari leikinn

Handbolti
KA/Þór leiðir fyrir síðari leikinn
Frábær frammistaða í dag! (mynd: Egill Bjarni)

KA/Þór lék sinn fyrsta leik í Evrópukeppni í dag þegar liðið mætti Kósóvómeisturunum í KHF Istogu í Kósóvó í dag. Báðir leikirnir í einvíginu fara fram ytra og er seinni leikurinn strax á morgun, laugardag. Það lið sem hefur betur samanlagt úr leikjunum tveimur fer áfram í næstu umferð.

Leikurinn í dag var æsispennandi og var í raun stál í stál frá upphafi og fram að lokakaflanum. Martha Hermannsdóttir gerði fyrsta mark okkar í leiknum og algjörlega við hæfi að Martha hafi verið sá leikmaður sem gerði fyrsta Evrópumark KA/Þórs. Heimakonur leiddu 12-11 þegar flautað var til hálfleiks og var jafnt á nánast öllum tölum í þeim síðari.

Stelpurnar okkar hafa sýnt það svo ótal mörgum sinnum að þær elska að spila undir pressu og þær hreinlega keyrðu yfir lið Istogu á lokakaflanum sem tryggði að lokum hrikalega dýrmætan og sætan 22-26 sigur en heimastúlkur leiddu 22-21 fyrir þennan magnaða endasprett.

Unnur Ómarsdóttir var markahæst í okkar liði með 8 mörk og næst kom Aldís Ásta Heimisdóttir með 5 mörk, Sofie Söberg Larsen gerði 4, Martha Hermannsdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir gerðu tvö mörk og þær Anna Þyrí Halldórsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir gerðu eitt mark. Í markinu varði Matea Lonac 14 skot.

KA/Þór leiðir því fyrir síðari leikinn sem er klukkan 16:00 á morgun en leikurinn á morgun telst vera heimaleikur KA/Þórs. Leikur morgundagsins verður í beinni útsendingu á EHF-TV sem og á rás RTV+ sem sýndi leik dagsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is