KA tvöfaldur Deildarmeistari í 4. flokk eldri

Handbolti

KA er tvöfaldur Deildarmeistari á eldra ári 4. flokks karla í handboltanum og lyftu bæði lið bikarnum í KA-Heimilinu um helgina. Það er heldur betur bjart framundan hjá þessum strákum en fyrr á árinu varð KA einnig Bikarmeistari í flokknum.

KA vann afar sannfærandi sigur í efstu deild en strákarnir unnu alla 16 leiki sína í deildinni og hafa ekki tapað leik undanfarin tvö ár. Þeir kláruðu Selfyssinga í lokaleiknum um helgina með góðum sigri og búa sig nú undir úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn þar sem liðið hefur titil að verja.

KA 2 átti einnig frábæran vetur en strákarnir töpuðu aðeins einum leik í 2. deildinni í vetur og unnu verðskuldaðan sigur í deildarkeppninni. Þeir lyftu bikarnum eftir góðan sigur á Selfyssingum um helgina í KA-Heimilinu og geta svo sannarlega verið stoltir af sinni framgöngu í vetur.

Þá eiga strákarnir á yngra ári enn möguleika á að verða Deildarmeistarar í efstu deild en það kemur í ljós á morgun hvort ÍR nái að hrifsa toppsætið af þeim í lokaleik sínum. En strákarnir á yngra árinu léku einnig til Bikarúrslita fyrr á árinu þar sem þeir þurftu að sætta sig við silfur eftir grátlegan endi á úrslitaleiknum. Það er því heldur betur spennandi tímar framundan hjá handboltanum í KA.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is