Kröfum Stjörnunnar vísað frá í máli KA/Þórs

Handbolti
Kröfum Stjörnunnar vísað frá í máli KA/Þórs
Sigur stelpnanna stendur (mynd: Egill Bjarni)

KA/Þór sótti Stjörnuna heim í Olísdeild kvenna þann 13. febrúar síðastliðinn og vann þar 26-27 sigur eftir mikinn baráttuleik. Að leik loknum kom í ljós að mistök höfðu orðið á ritaraborði leiksins með þeim hætti að marki hafði verið bætt við hjá KA/Þór.

Dómarar leiksins undirrituðu leikskýrsluna að honum loknum og staðfestu þar með lokatölurnar 26-27. Stjarnan, sem var heimalið á leiknum og bar ábyrgð á framkvæmd leiksins, kærði að lokum framkvæmdina til HSÍ og lagði fram tvær kröfur.

A) Að markið skyldi niðurfalla og leikurinn færi því 26-26

B) Að leikurinn yrði spilaður að nýju

Dómstóll HSÍ bar upp niðurstöðu sína í málinu í dag og hafnaði þar báðum kröfum Stjörnunnar og standa því úrslit leiksins, 26-27 KA/Þór ívil. Hér er hægt að lesa niðurstöðu dómstóls HSÍ í málinu.

Leikmenn og þjálfarar haga leik sínum útfrá þeirri stöðu sem er uppi hverju sinni og hafði því staðan sem ritaraborð leiksins sýndi klárlega áhrif á hvernig leikurinn spilaðist. Mistök geta átt sér stað á öllum sviðum leiksins, mark dæmt sem er ekki löglegt og öfugt. Mistök eru hluti af leiknum hvort sem er hjá leikmönnum, þjálfurum, dómurum eða starfsmönnum leiksins.

KA/Þór fagnar því að þessu máli sé lokið og að stigin tvö séu staðfest en þetta mál var leiðinlegt fyrir alla aðila sem komu að því.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is