Landsbyggðarslagur í Eyjum kl. 18:00

Handbolti
Landsbyggðarslagur í Eyjum kl. 18:00
Einar Danski er klar til handling!

KA sækir ÍBV heim í Olísdeild karla í handboltanum klukkan 18:00 í dag en leikurinn átti upphaflega að fara fram í gær en var frestað vegna veðurs. Strákarnir fóru hinsvegar suður í gær til að tryggja það að leikurinn gæti farið fram í dag.

ÍBV er að vanda með hörkulið og er með 9 stig eftir sjö leiki í 6. sæti deildarinnar, með sigri færu Eyjamenn upp í 3.-5. sæti deildarinnar en á sama tíma myndi KA liðið jafna ÍBV að stigum með sigri.

Leikir KA og áður sameinaðs liðs Akureyrar gegn ÍBV hafa iðulega verið gríðarlega jafnir og spennandi og má svo sannarlega búast við því sama í kvöld. Strákarnir okkar hafa verið á fínni siglingu undanfarið og stefna á tvö mikilvæg stig enda deildin ákaflega jöfn þennan veturinn.

Leikurinn í dag verður í beinni útsendingu á ÍBV-TV og kunnum við Eyjamönnum bestu þakkir fyrir það. Hægt er að nálgast útsendinguna hér fyrir neðan, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is