Markvörðurinn Jovan Kukobat semur við KA

Handbolti
Markvörðurinn Jovan Kukobat semur við KA
Jovan var 11 sinnum maður leiksins hjá Akureyri

Þau tíðindi voru að berast að markvörðurinn frábæri, Jovan Kukobat sem lék með Akureyri tímabilin 2012-13 og 2013-14 hafi gert eins árs samning við KA og leiki með liðinu næsta tímabil. Jovan hefur ekki verið aðgerðalaus frá því hann fór frá Akureyri en hefur leikið í heimalandinu, Serbíu og Ísrael frá því að hann fór frá Akureyri vorið 2014.

Allir sem fylgdust með Jovan Kukobat þegar hann lék með Akureyri vita að þar er á ferðinni frábær markvörður og var einn besti maður Akureyrarliðsins á þessum tíma. Sjö sinnum var hann valinn maður Akureyrarliðsins tímabilið 2013-14 og var jafnframt valinn besti varnarmaður liðsins í lok tímabilsins.

Jovan Kukobat er nú á 30. aldursári, sannkallað jólabarn því hann er fæddur á jóladag 1987. Þetta eru frábær tíðindi og gríðarlegur styrkur fyrir leikmannahóp KA fyrir komandi tímabil. Jovan hlakkar mikið til að snúa aftur til Akureyrar og biður fyrir kveðjur til gamalla vina og kunningja.

Smelltu á myndina hér að neðan til að rifja upp tölfræði og myndir frá tímabilunum tveim sem Jovan lék með  Akureyri.


Jovan Kukobat fagnar einu sinni sem oftar góðri vörslu

Eftir fyrri dvöl sína á Akureyri lék Jovan með serbneska liðinu HC Vojvodina. Á netinu fundum við vídeóklippur með nokkrum vel völdum vörslum hjá Jovan frá tímabilinu 2014-2015.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is