Rakel Sara til liðs við Volda

Handbolti
Rakel Sara til liðs við Volda
Spennandi tímar framundan hjá Rakel Söru!

Rakel Sara Elvarsdóttir mun ganga til liðs við Volda í Noregi á næsta tímabili og hefur skrifað undir tveggja ára samning við liðið. Rakel Sara sem er uppalin í KA/Þór er aðeins 19 ára gömul en hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið lykilhlutverk í okkar liði undanfarin fjögur tímabil.

Rakel Sara sem leikur í hægra horni var valin efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar á síðasta tímabili er KA/Þór hampaði Íslandsmeistaratitlinu auk þess að vera Bikarmeistari og Deildarmeistari. Hún hefur á þessu tímabili fest sig í sessi í A-landsliði Íslands þar sem hún hefur leikið fimm leiki.

Það verður ákaflega spennandi að fylgjast áfram með framvindu hennar í Noregi en Rakel Sara er fyrsti leikmaður KA/Þórs sem fer beint út í atvinnumennsku frá félaginu síðan Ásdís Sigurðardóttir fór til Þýskalands árið 2003 og lék með liði TuS Weibern í þýsku Bundesligunni.

Rakel Sara er gríðarlega metnaðarfull og enginn vafi á því að hún mun halda áfram að bæta sig og ná langt í handboltaheiminum.

Á sama tíma og við óskum henni til hamingju með samninginn hlökkum við til að fylgjast með henni út núverandi tímabil í búningi KA/Þórs en stelpurnar hefja undanúrslitaeinvígi sitt gegn Val á morgun, föstudag, á Hlíðarenda.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is