Rakel Sara valin í Respect Your Talent

Handbolti
Rakel Sara valin í Respect Your Talent
Rakel Sara og Ásdís Þóra eru fulltrúar Íslands

Evrópska Handknattleikssambandið, EHF, hefur sett af stað nýtt framtak þar sem ungar og efnilegar handboltakonur munu koma saman í svokallaðar leikmannabúðir og fá þar leiðsögn frá nokkrum af bestu handboltakonum sögunnar. Markmið búðanna er að efla þróun leikmannanna utan vallar.

Rakel Sara Elvarsdóttir var valin í þetta skemmtilega verkefni en Rakel var valin besti hægra hornamaðurinn á EM-B mótinu sem U17 ára landslið Íslands tók þátt á í sumar. Stelpurnar þurftu að sætta sig við silfurverðlaun á mótinu eftir tap í vítakeppni í úrslitaleik en auk Rakel Söru var Helga María Viðarsdóttir í hópnum frá KA/Þór.

Ísland átti tvo leikmenn í úrvalsliði mótsins og voru þær báðar valdar í Respect Your Talent leikmannabúðirnar. Auk Rakel Söru er Ásdís Þóra Ágústsdóttir úr Val í hópnum og ljóst að þetta er gríðarlega mikill heiður fyrir stelpurnar og frábært tækifæri.

EHF mun í desember fljúga stelpunum tveimur til Vínarborgar til að taka þátt í leikmannabúðunum þar sem þær fá einstakt tækifæri til að vinna með sumum af bestu handboltamönnum í heimi, EHF sendiherrum og færustu sérfræðingum Evrópu á ýmsum sviðum. En þetta eru sem dæmi þær Steine Oftedal (Noregur), Ana Gros (Slóvenía), Anja Althaus (Þýskaland) Johanna Ahlm (Svíþjóð) og Nerea Pena (Spánn).

Við óskum stelpunum til hamingju með valið sem og góðs gengis í þessu skemmtilega verkefni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is