Sjöundi bikartitillinn kom árið 2016

Blak
Sjöundi bikartitillinn kom árið 2016
KA varði titilinn árið 2016

Karlalið KA í blaki varð Bikarmeistari í sjöunda skiptið árið 2016 eftir að hafa lagt Þrótt Neskaupstað 3-1 að velli í úrslitaleiknum. Í undanúrslitunum hafði KA-liðið slegið út sjálfa Íslandsmeistarana í HK og varði þar með Bikarmeistaratitil sinn frá árinu 2015.

Í úrslitaleiknum var Piotr Kempisty leikmaður KA valinn maður leiksins en hann átti sannkallaðan stórleik og setti 36 stig í leiknum!

Bikarmeistarar KA í blaki 2016:
Hristiyan Dimitrov, Marteinn Möller, Ingvar Guðbergsson, Alexander Arnar Þórisson, Benedikt Rúnar Valtýsson, Sævar Karl Randversson, Vigfús Jónbergsson, Filip Pawel Szewczyk, Valþór Ingi Karlsson, Ævarr Freyr Birgisson, Piotr Kempisty og Guðbergur Egill Eyjólfsson.

KA vann fyrstu hrinuna 28-26 sem var ótrúlega jöfn og aðeins nokkrum sinnum fór munurinn yfir eitt stig. Annars var jafnt á öllum tölum. Marteinn Möller og þjálfarinn og fyrirliðinn Filip Pawel Szewczyk tryggðu sigur í fyrstu hrinu. KA byrjaði aðra hrinu vel og var alltaf aðeins á undan en Þróttarar hleyptu KA-mönnum aldrei langt frá. Þeir náðu að jafna í 9-9 og komast í 16-12. En KA gafst ekki upp og með mikilli seiglu tókst liðinu að jafna í 19-19 og komast yfir 20-19. Ana Maria Vidal, þjálfari Þróttar, tók þá leikhlé og lét sína stráka heldur betur heyra það.

Það dugði ekki og KA vann aðra hrinu 25:21. Eitthvað hefur Ana Maria sagt við sitt lið því það var allt annað að sjá liðið í þriðju hrinu sem endaði 25:16 þar sem Valgeir Valgeirsson fór mikinn fyrir Þróttara. Hafi Valgeir farið mikinn fyrir Þróttara fór Piotr Kempisty hamförum í fjórðu hrinu og skoraði 12 stig, meðal annars einn skemmtilegan ás úr uppgjöf. Kempisty var valinn maður leiksins.

KA vann fjórðu hrinu 25:18, eftir að Þróttarar höfðu komist yfir 14:13 og fögnuðu KA-menn ógurlega í leikslok. „Þetta var virkilega skemmtileg blakhelgi og það er auðvitað frábært að enda í sigurliðinu,“ sagði Ævarr Freyr Birgisson, leikmaður KA. „Ég veit ekki hvað gerðist í þriðju hrinu. Raggi (Ragnar Ingi Axelsson) kom með góðar uppgjafir og ég átti í erfiðleikum með þær. En ég held að þetta hafi verið eitthvert andlegt klúður. Svona bikarhelgar eru skemmtilegar. Það er slatti af áhorfendum að horfa, ekki eins margir og í öðrum íþróttagreinum og mikið fjör.“


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is